Viðskipti innlent

Hanna Birna fagnar áhuga Nubo

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að þeir sem vilji fjölga tækifærum í atvinnulífinu, og um land allt, hljóti að fagna áhuga öflugra og ábyrgra fjárfesta - hvaðan sem þeir koma.

Þetta ritar Hanna Birna á vegg sinn á samskiptavegnum Facebook og á þá við umdeilda fjárfestingu Kínverjans, Huang Nubo.

Þetta viðhorf gengur í berhögg við skoðanir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði í viðtali við Vísi á dögunum, að hann gerði greinarmun á því hvort menn vilji hefja atvinnustarfemi á Íslandi, „eða sækjast eftir því að kaupa mörghundruð ferkílómetra lands. "

Þetta viðhorf hefur reyndar orðið til þess að Frjálshyggjufélagið hefur fordæmt formanninn.

Í ályktun frá félaginu segir orðrétt:

„Andúð róttækra vinstrimanna á erlendri fjárfestingu er vel kunn, en hins vegar kveður við nýjan tón hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann segir það ekki sjálfsagt að útlendingar geti keypt stórar jarðir hér á landi," segir ennfremur. „Frjálshyggjufélagið fordæmir ummæli Bjarna. Með ummælum sínum er hann kominn í flokk með Ögmundi Jónassyni og Lilju Mósesdóttur sem amast hafa hvað helst við Huang Nubo."

Ekki náðist í Hönnu Birnu við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×