Íslenski boltinn

Hlynur: Hélt að þær væru sterkari

Hjalti Þór Hreinsson á Þórsvelli skrifar
Hlynur Eiríksson.
Hlynur Eiríksson. Fréttablaðið/Valli
Hlynur Svan Eiríksson, þjálfari Þórs/KA, bjóst við meiru af Potsdam í Meistaradeildinni í dag. Potsdam vann leikinn 6-0 en þjálfarinn er stoltur af leikmönnum sínum.

"Við getum verið þokkalega sátt við frammistöðuna. Liðið lagði sig 100% fram. Auðvitað er samt fúlt að tapa 6-0 og það er svolítið stórt, en það gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum."

"Leikurinn er í jafnvægi fram að sjálfsmarkinu og það sló okkur svolítið útaf laginu. Þrjú marka þeirra fannst mér vera spurning um rangstöðu. Ég er reyndar ekki alveg dómbær á það þarna á hliðarlínunni."

"Ég hélt að þær væru sterkari," sagði Hlynur um Potsdam.

"Ég held ekki að þær hafi verið að spara sig. Ég held bara að við höfum komið þeim á óvart. Planið var að láta þær finna vel fyrir okkur."

"Þessi rólyndisþjálfari þeirra var farinn að garga á þær eftir 25 mínútur, greinilega ekki sáttur. Þá erum við að gera eitthvað rétt," sagði þjálfarinn.

"Ég er stoltur af stelpunum. Þær lögðu sig vel fram og stundum vantaði aðeins herslumuninn að við slyppum í gegn."

"Við ætlum ekkert að leggjast í vörn í seinni leiknum. Við spiluðum 4-3-3 með duglega vængmenn í dag sem sóttu til baka og við spilum eins úti. Ef við leggjumst í skotgrafirnar leyra þær bara yfir okkur. En við reyndum alltaf að sækja," sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×