Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi og Hildur efnilegust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórarinn Ingi og Hildur með verðlaunin sín í kvöld.
Þórarinn Ingi og Hildur með verðlaunin sín í kvöld. Mynd/Valli
Efnilegustu leikmenn ársins í Pepsi-deild karla og kvenna eru að þessu sinni Þórarinn Ingi Valdimarson, ÍBV, og Hildur Antonsdóttir, leikmaður Vals.

Þórarinn Ingi var lykilmaður í liði ÍBV sem endaði í þriðja sæti Pepsi-deildar karla eftir að hafa verið í toppbaráttunni allt til loka.

Hildur þykir ein efnilegasta knattspyrnukna landsins um þessar mundir en hún varð bikarmeistari með Val nú í sumar. Hún er aðeins sextán ára gömul og kom við sögu í alls sautján leikjum í deild og bikar í sumar.

„Auðvitað er þetta mikil viðurkenning heiður fyrir mig," sagði Þórarinn Ingi við Vísi eftir afhendinguna. „Það eru margir góðir leikmenn úr mínum aldursflokki sem spiluðu í sumar og margir sem áttu þetta líka skilið. En ég fékk þetta núna og er það ánægjulegt."

ÍBV hefur endað í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar tvö ár í röð og hefur liðið nú fengið nýjan þjálfara, Magnús Gylfason. Þórarinn Ingi segir að stefnan verði aftur sett á toppbaráttuna á næsta tímabili.

„Það er kominn nýr þjálfari sem veit hvað þarf að bæta og styrkja í liðinu. Hann er með sín markmið og ég veit að þau eru að stefna eins ofarlega og mögulegt er."

Hildur var ánægð með tímabilið sitt en segir að það hafi verið fúlt að missa af Íslandsmeistaratitlinum. „Þetta var erfitt tímabil en þetta var mitt fyrsta ár í meistaraflokki og fannst mér það mjög skemmtilegt. Það skemmir heldur ekki fyrir að hafa unnið þessi verðlaun - ég er mjög stolt af þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×