Lífið

Íslandsmyndband Bon Iver frumsýnt

Íslandsmyndband indí-rokkarans Bon Iver við lagið Holocene var frumsýnt á heimasíðu National Geographic í gær. Myndbandinu er leikstýrt af Nabil Elderkin, sem hefur unnið mikið með rappofurstjörnunni Kanye West. Fjallað var um myndbandið á vefsíðu pitchfork.com í gær en það hefur þegar vakið mikla athygli.

Í hverri viku er eitt myndband valið á vefsíðu National Geographic sem þykir sýna fjölbreytileikann á vefnum. Að þessu sinni var hins vegar tekin sú ákvörðun að frumsýna myndband Bon Iver en það þykir sýna einstaka náttúrufegurð landsins.

Myndbandið er tekið upp við Vík í Mýrdal og segir leikstjórinn að það hafi alltaf verið draumur sinn að gera myndband á Íslandi. „Ísland er töfrum hlaðið og lítur út fyrir að vera Mars. Mig hefur alltaf langað til að gera myndband þarna og þegar Bon Iver gaf mér leiðbeiningar fyrir myndbandinu þá vissi ég að Ísland væri staðurinn."

Myndbandið sýnir ungan íslenskan dreng ganga um í náttúrunni og sjást þekktir staðir eins og Dyrhólaey, Svartifoss og Jökulsárlón og er einstaklega fallegt að líta. Lagið Holocene er af plötu Bon Iver, samnefndri sveitinni, sem kom út í júní. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.