Sport

Nadal enn konungur leirsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Rafael Nadal vann í dag sigur á opna franska meistaramótinu í tennis í sjötta sinn á ferlinum. Hann lagði Roger Federer í úrslitaviðureiginni með þremur settum gegn einu.

Þar með jafnaði hann met Svíans Björn Borg sem vann mótið sex sinnum á sínum tíma. Nadal er aðeins 25 ára gamall og ætti því að eiga nóg eftir.

Þetta var í sjöunda skiptið sem Nadal keppir á opna franska en hann hefur aðeins tapað einnig viðureign á þeim tíma af alls 45. Mótið er eina stórmótið þar sem keppt er á leir og hefur það margsýnt sig að þar er hann illviðráðanlegur.

Hann hefur alls unnið tíu risamót á ferlinum en Federer, sem er 29 ára, á sextán slíka titla.

Federer byrjaði þó vel og komst í 5-2 forystu í fyrsta settinu. Nadal náði þó að svara fyrir og vann næstu fimm lotur og þar með settið, 7-5. Hann vann einnig næsta sett, 7-6, áður en Federer svaraði fyrir sig og vann þriðja settið, 7-5.

En þá sagði Nadal hingað og ekki lengra. Hann vann öruggan sigur í fjórða settinu, 6-1, og þar með titilinn sem hann fagnaði vel og innilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×