Innlent

Leggjast gegn staðgöngumæðrun

Starfshópur heilbrigðisráðuneytisins um staðgöngumæðrun leggjst gegn því að staðgöngumæðrun yrði heimiluð hér á landi. Í sama streng tekur siðfræðiráð Læknafélagsins. Þrátt fyrir þetta hafa nokkrir þingmenn, tveir fyrrverandi heilbrigðisráðherrar þar á meðal, lagt til að hún verði heimiluð. Forstöðumaður Siðfræðistofnunar, segir að enn sé mörgum spurningum ósvarað um staðgöngumæðrun.

Guðlaugur Þór Þórðarson, setti á laggirnar hóp til að fara yfir ýmis álitamál um staðgöngumæðrun árið 2009, meðan hann var í embætti heilbrigðisráðherra. Í ráðherratíð Álfheiðar Ingadóttur, gaf hópurinn út áfangaskýrslu, í febrúar í fyrra; þar sem farið er yfir fjölmörg álitamál.

Enn fremur er bent á að þessi mál þurfi að ræða ítarlega í samfélaginu áður en afstaða sé tekin til málsins. Í lokaáliti hópsins, sem skilað var til Álfheiðar í sumar, er lagst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð hér. Þar er enn fremur vitnað til siðfræðiráðs læknafélagsins sem mælir ekki með því að staðgöngumæðrun verði leidd í lög.

Nokkrir þingmenn, Guðlaugur Þór og Álfheiður þar á meðal, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar, um að hópur verði skipaður til að undirbúa frumvarp til laga, um að staðgöngumæðrun verði heimiluð. Hún verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni, eins og það er orðað, og aðeins að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Í greinargerð með ályktuninni er vísað til áfangaskýrslu hópsins, sem Guðlaugur Þór skipaði og málþings um þetta sem haldið var í mars í fyrra. Enn fremur segir í greinargerðinni að flutningsmenn telji ljóst að nægar upplýsingar séu tiltækar til að undirbúa frumvarpssmíð. Hvergi er hins vegar getið lokaniðurstöðu starfshópsins; sem leggst alfarið gegn því að þetta verði heimilað hér, eins og áður segir.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir að enn sé mörgum spurningum ósvarað um málið.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að fara varlega í staðgöngumæðrun," segir Salvör.

Ítarleg fréttaskýring um staðgöngumæðrun verður birt á Vísi á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×