Innlent

Vill að stjórnvöld lækki skattana

Bensínlítrinn hækkaði enn í verði í gær og kostar nú um 213 krónur.
Bensínlítrinn hækkaði enn í verði í gær og kostar nú um 213 krónur.
Eldsneytisverð náði nýjum hæðum í gær þar sem verð á bensínlítra í sjálfsafgreiðslu fór allt upp í 213,6 krónur og lítraverð á dísilolíu fór upp í 213,9 krónur. Sáralítill verðmunur er milli útsölustaða þar sem innan við krónu munar á hvorri tegund.

Eins og fram hefur komið hækkaði álagning ríkisins á eldsneyti um áramótin, en sú hækkun á enn eftir að hafa full áhrif á útsöluverð. Það mun leggjast á þegar nýjar eldsneytisbirgðir berast.

Meðal þess sem leiðir til hækkunar nú er hækkun á heimsmarkaðsverði bensíns og dísilolíu, lækkandi gengi krónu gegn Bandaríkjadal ásamt aukinni eftir­spurn frá Asíu og vegna kulda í Evrópu.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali við Fréttablaðið að hann vonist til að stjórnvöld dragi í land með skattahækkanir.

„Stjórnvöld ráða auðvitað engu varðandi heimsmarkaðsverð og annað, en það sem þau hafa þó í höndum eru stýritæki sem eru skattar. Á einhverjum tímapunkti hljóta menn að sjá að sér, því að það er farið að vera erfitt fyrir tekjulægri fjölskyldur að nota heimilisbílinn eins og áður.“ - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×