Innlent

Tækni­leg vand­ræði hjá Há­skóla Ís­lands

Eiður Þór Árnason skrifar
Bilun er í miðlægum búnaði hjá Háskóla Íslands.
Bilun er í miðlægum búnaði hjá Háskóla Íslands. Vísir/Vilhelm

Vefir Háskóla Íslands liggja nú niðri vegna kerfisbilunar og hafa tæknilegir erfiðleikar meðal annars áhrif á vefi Árnastofnunar. Netið á háskólasvæðinu er sömuleiðis óvirkt vegna bilunarinnar.

Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri Upplýsingatæknisviðs Háskóla Íslands, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir orsökina liggja í bilun í sýndarvélum háskólans. Ekkert bendi til að um tölvuárás sé að ræða. 

„Þegar slíkt gerist þá dettur svolítið mikið út, þar með talið vefirnir.“ Bilunin hafi umtalsverð áhrif á starfsemi skólans.

Guðmundur segir unnið að viðgerð og vonast til að vefirnir verði fljótlega komnir í samt horf. Ekki þurfi að skipta út neinum vélbúnaði og því ætti þetta að ganga frekar greiðlega fyrir sig. „Þetta er bara spurning um búnað sem þarf að laga til og þá hrekkur hann í gang og þá fer allt í samband.“

Um fjórir mánuðir eru frá því að greint var frá svipaðri bilun í tölvukerfum Háskóla Íslands í apríl sem hafði áhrif á vefi og aðra starfsemi skólans.  

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×