Innlent

Staðfestir dóm yfir syni manns í "stærstu glæpasamtökum heims"

Hæstirétttur.
Hæstirétttur.
Hæstiréttur staðfesti dóm yfir hálffertugum karlmanni sem var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að nefbrjóta karlmann og marglemja hann í bifreið.

Samkvæmt dómsorði þá hótaði hann einnig manninum, en hann sagði að faðir sinn væri hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims" og að lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu fórnarlambsins mein.

Það var í febrúar 2009 sem mennirnir hittust í bifreið hins dæmda. Hann bar upp á fórnarlambið að hann ætti í tygjum við konu sína. Ástæðan voru póstsamskipti sem gengu þeirra á milli en þau unnu þá saman.

Um var að ræða grínpósta að sögn fórnarlambsins en svo virðist sem afbrýðissami eiginmaðurinn hafi misskilið grínið með þeim afleiðingum að hann gekk í skrokk á honum í bílnum.

Þá hótaði árásarmaðurinn manninum öllu illu, meðal annars með stöðu föður síns innan „stærstu glæpasamtaka heims".

Ekki er ljóst hvaða samtök árásarmaðurinn átti við, en stærstu glæpasamtök veraldar er Yakuza-mafían í Japan. Talið er að meðlimir japönsku mafíunnar séu tæplega 90 þúsund.

Þó má leiða líkur að því að um Vítisenglana sé að ræða þar sem Yakuza-mafían hefur ekki haslað sér völl hér á landi. Ennþá.

Í dómsorði kemur fram að árás mannsins hafi verið harkaleg og langdregin. Þá hafi hann sýnt einbeittan brotavilja með verkinu. Því sé ekki tilefni til þess að skilorðsbinda refsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×