Innlent

Dæmd til þess að greiða fyrir fermingaveislu dóttur sinnar

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.
Móðir var dæmd í Héraðsdómi Reykjaness í dag til þess að greiða H 57 ehf, Flughótel í Reykjanesbæ, 340 þúsund krónur fyrir fermingaveislu dóttur sinnar sem þar var haldin.

Upprunalegi reikningurinn hljóðaði upp á 588 þúsund krónur. Konan mótmælti upphæðinni en áætlaður fjöldi gesta voru 90 fullorðnir og 50 börn.

Aftur á móti rukkaði hótelið konuna fyrir 145 fullorðna á meðan hún vildi meina að aðeins hafi verið borinn fram matur fyrir 112 gesti alls. Konan kvaðst hafa haldið því fram að 380.000 krónur væru hámark þess sem greiða skyldi fyrir veisluna, en í ljósi þess hvernig framkvæmd hennar hafi verið krafðist hún afsláttar af umsömdu verði og bauðst til að greiða 300.000 krónur.

Samið var um að fullorðnu gestirnir fengju lambakjöt í aðalrétt með ábót. Í eftirrétt skyldi vera kaffi og kökur. Börn áttu að fá kjúklingakjöt og greiða skyldi 1.600 krónur fyrir hvert barn,  5-11 ára, en ekkert fyrir börn 4 ára og yngri. Þá hafi verið samið um að veita skyldi gosdrykki með matnum og skyldi greiða 750 krónur fyrir hverja könnu. Til staðfestingar á samkomulagi þessu greiddi konan og faðir barnsins samtals hundrað þúsund krónur.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að móðirinn lagði fram gestabók, sem sýndi fram á að 77 fullorðnir gestir mættu, að hún skyldi greiða fyrir 145 fullorðna. Aftur á móti var verðið fyrir gosdrykkina lækkað. Hótelið vildi meina að veittar hefðu verið 126 könnur af gosi á 750 krónur fyrir hverja könnu eða samtals 94.500 krónur.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að greiða  33.750 krónur fyrir veitta gosdrykki og er þá við það miðað að hver gestur hafi neytt rúmlega 0,7 lítra af gosi, en ekki 1,25 lítra.

Móðir fermingabarnsins vildi einnig meina að þjónusta hótelsins hefði verið verulega ábótavant en undir það tók héraðsdómur ekki.

Niðurstaðan var því sú að konan skyldi í heild greiða 440 þúsund krónur fyrir veisluna. Þá dragast frá þær hundrað þúsund krónur frá sem hún hafði þegar greitt fyrir þjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×