Innlent

Jóhanna: Engum heilvita manni dytti það í hug

„Dettur einhverjum heilvita manni í hug, að þrjár konur, ég sem forsætisráðherra, ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og mannauðsráðgjafinn, sem líka er kona, hafi eina einustu mínútu gert sér í hugarlund að þær væru að brjóta jafnréttislög með þessari skipun í embætti?" spurði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi fyrir stundu.

Þar flutti hún skýrslu um úrskurð Kærunefndar jafnréttismála sem var á þá leið að Jóhanna hafi brotið gegn jafnréttislögum.

Jóhanna vísaði til þess hversu mjög hún hefur barist fyrir jafnrétti kynjanna í gegn um tíðina og því fari víðs fjarri að henni dytti í hug að brjóta vísvitandi jafnréttislög.

Jóhanna segir mikilvægt að taka úrskurðinn alvarlega og fara vel yfir hann til að unnt sé að beita réttum vinnubrögðum í framtíðinni.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun sagðist Jóhanna ekki sjá ástæðu til að segja af sér vegna málsins þar sem faglega hefði verið staðið að ráðningunni. Þar tók hún fram að hún hefði hins vegar íhugað afsögn ef hún hefði gerst sek um að ganga framhjá faglegu mati og skipað pólitískt í stöðuna,  og rifjaði í því sambandi upp skipan Árna Mathiesen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem skipaði Þorstein Davíðsson sem héraðsdómara þrátt fyrir að hann væri langt því frá að vera metinn hæfastur í stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×