Innlent

Ekki á að þrengja að fjölmiðlum

Skúli Helgason
Skúli Helgason
Menntamálanefnd Alþingis hefur lokið fyrstu yfirferð frumvarps að heildarlögum um fjölmiðla. Önnur umræða fer fram á næstunni.

Að sögn Skúla Helgasonar, formanns menntamálanefndar, hefur fjölmiðlafrumvarpið tekið allnokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar, en ákvæði í því hafa sætt harðri gagnrýni af hálfu fagfélaga blaða- og fréttamanna.

„Við höfum reynt að koma til móts við sjónarmið um að mikilvægt sé að skerða ekki tjáningarfrelsi miðlanna eða þrengja að þeim í sínum störfum,“ segir Skúli og kveður lagfæringar hafa verið gerðar á nokkuð mörgum stöðum í frumvarpinu. „Við höfum til dæmis dregið úr viðurlögum við ákveðnar greinar, eins og greininni um lýðræðislegar grundvallarreglur. Hún er nú meira í ætt við stefnulýsingu en að vera tengd tilteknum viðurlögum.“

Sömuleiðis segir Skúli nefndina hafa sett inn að ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði miðla, sem hann telji eitt mikilvægasta ákvæði laganna, þurfi að vinna í samstarfi við fagfélög blaða- og fréttamanna, en áður var kveðið á um að þau skyldu unnin með starfsmannafélögum.

Þá segir Skúli mikilvægt að sett hafi verið í lögin nýtt bráðabirgðaákvæði um endurskoðun þeirra innan þriggja ára frá gildistöku. „Það tryggir að menn eru viðbúnir að bregðast við ef upp koma einhverjar aðstæður sem við sjáum ekki fyrir í dag.“

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×