Innlent

Forvarnir og árvekni lykilatriði málsins

Páll Bragi Kristjónsson hefur náð sér að fullu eftir að hafa greinst með ristilkrabbamein árið 2009. Hann fagnar Mottumars-átakinu og segir forvarnir skipta öllu máli.Fréttablaðið/GVA
Páll Bragi Kristjónsson hefur náð sér að fullu eftir að hafa greinst með ristilkrabbamein árið 2009. Hann fagnar Mottumars-átakinu og segir forvarnir skipta öllu máli.Fréttablaðið/GVA
Mottumars-átak Krabbameinsfélags Íslands, þar sem vakin er athygli á krabbameini í körlum, hefur gengið vel það sem af er mánuðinum.

Lykilatriði í átakinu eru forvarnir og árvekni þar sem greiningartími skiptir höfuðmáli.

Páll Bragi Kristjónsson, fyrrverandi útgefandi, er til vitnis um mikilvægi þess að greinast snemma því að hann hefur unnið bug á ristilkrabbameini.

„Ég hafði aldrei kennt mér meins en fór reglulega í læknisskoðun um árabil," segir Páll Bragi í samtali við Fréttablaðið.

„Svo var það fyrir tilviljun að ég tók þátt í heilsuverkefni í háskólanum sumarið 2009 þar sem tekin var blóðprufa. Prufan fer svo til heimilislæknisins míns, sem tekur eftir að blóðgildið hjá mér hefur fallið nokkuð."

Páll Bragi segir það hafa komið sér á óvart þar sem hann hafi verið í góðu formi og leikið golf á hverjum degi þetta sumar.

„Læknirinn sendir mig þó í fjöldann allan af rannsóknum, en ekkert kom út úr þeim. Svo var það í einni skoðun sem ég minnist á ákveðið einkenni og við það kveikir hún á perunni og sendir mig í ristilspeglun."

Þar kom í ljós að Páll Bragi var með fullburða krabbamein á tveimur stöðum í ristlinum og það þriðja á byrjunarstigi. Ristilkrabbamein er oft erfitt viðfangs.

„Ef læknirinn hefði ekki tekið svo vel á málinu og ekki látið rannsaka mig til þrautar, þótt ég fyndi ekki fyrir neinu, hefði meinið fengið að þróast áfram þar til það hefði komist á verra stig."

Páll fór í aðgerð í lok árs 2009 þar sem allur ristillinn úr honum var fjarlægður, en svo vel vildi til að meinið hvarf alfarið við það og Páll þurfti ekki að gangast undir lyfjameðferð. Hann hefur nú náð sér að fullu.

„Ég varð samt mjög veikur í kjölfar aðgerðarinnar, en ákvað eftir áramótin að drífa mig í líkamsrækt og var kominn út á golfvöll í maí."

Páll segir að vissulega séu svona alvarleg veikindi erfið lífsreynsla. Þó megi ekki leggja árar í bát þar sem lífið geti boðið upp á fleira.

Annar lærdómur, og ekki síðri, sem megi draga af hans sögu sé sá að árvekni og forvarnir skipta lykilmáli. Mottumars sé því nauðsynlegt átak til að undirstrika það.

„Eftir mína reynslu, er ég auðvitað þakklátur öllum þeim sem taka þátt í að leggja verkefninu lið og vekja á því athygli."

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×