Innlent

Jóhanna: Vilja nú svínið og hundurinn gæða sér á brauðinu?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var næst í pontu á eftir Bjarna Benediktssyni eftir að hann hafði lagt fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina  á Alþingi í dag. Jóhanna það kaldhæðni örlaganna að vantrauststillagan kæmi frá Sjálfstæðisflokknum á ársafmæli rannsóknarskýrslu Alþingis þegar öllum bæri saman um að sami flokkur sé helsti sökudólgur hrunsins. Nú stígi forystumenn flokksins fram, þegar loks væri  farið að sjá til sólar og krefðust kosninga. Jóhanna vitnaði að lokum í Litlu gulu hænuna og spurði hvort hundurinn og svínið vilji nú gæða sér á brauðinu sem litla gula hænan bakaði ein.

Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki beðist afsökunar á þætti sínum í hruninu, ekki gert upp styrkjamál sín og ekki „axlað ábyrgð á spillingu sem viðgekkst í stjónarráðinu í tíð þeirra." Slíkur flokkur ætti að mati hennar ekkert erindi í ríkisstjórn enn um sinn.

Jóhanna sagði að þrátt fyrir margvíslega erfiðleika blasi góður árangur ríkisstjórnarinnar samt við öllum. Tekist hafi að vinda ofan af mesta efnahagshruni sögunnar auk þess sem mikil varnarbarátta hafi verið háð fyrir velferðarkerfi landsins. Atvinnuleysið er að mati Jóhönnu enn of mikið, en þó mun minna en spáð var fyrir um.

Hún sagði því árangur núverandi ríkisstjórnar óumdeilanlegann og að vantraust gegn henni væri því ekki hægt að rökstyðja af sanngirni á þeim nótum. Hún sagðist hinsvegar vel geta skilið að „gömlu valdablokkirnar" vildu komast til valda á ný til þess að þær gætu komið í veg fyrir ýmsar breytingar sem standi fyrir dyrum. Nefndi hún umhverfismálin, fiskveiðistjórnunarmálin, orkumálin og endurskoðun á stjórnarskránni í því sambandi.



Að lokum vitnaði Jóhanna í Litlu gulu hænuna: „Vilja nú hundurinn og svínið gæða sér á brauðinu sem litla gula hænan bakaði ein?“ Hún bætti svo við að þeir sem vilji alvöru breytingar hér á landi hljóti að sameinast um að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin verði sett af og við fáum nýja allt öðruvísi

"Það er sama hvar maður lítur inn á erlenda fjölmiðla þar sem hæstvirtur forsætisráðherra er til svara, allsstaðar eru svörin eins, að Íslendingar hafi valið versta hugsanlega kostinn - að hún óttist pólitíska upplausn, kaos,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum um vantrausttillögu Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnina.

Bjarni: Hagsmunir þjóðarinnar að kosið verði hið fyrsta

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu sína um vantraust á ríkisstjórnina klukkan fjögur í dag. Bjarni sagði tillöguna lagða fram fyrir hönd allra þeirra sem gefist hafi upp á samstarfi núverandi stjórnarflokka. Hann líkti ríkisstjórninni við grindahlaupara sem hafi misstigið sig sig í upphafi hlaups og aldrei náð taktinum. Enginn hefði trú á því að hann nái í mark. Bjarni hvatti til þess að tillagan verði samþykkt svo Alþingi geti endurheimt virðingu og traust, sem séu forsendur uppbyggingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×