Innlent

Mikið vatnstjón í Árbæjarhverfinu

Orkuveitan.
Orkuveitan.
Tjón varð í mörgum íbúðum í vestanverðu Árbæjarhverfinu í Reykjavík í gærkvöldi, þegar heitt vatn fór að leka úr lögnum.

Margir hringdu í ofboði á slökkviliðið, sem sinnti að minnstakosti 15 útköllum þar sem þurfti að þurrka upp eða dæla út heitu vatni.

Mun fleiri beiðnir bárust, en voru afturkallaðar þegar íbúar höfðu sjálfir lokað fyrir inntök í hús sín. Ekki er vitað um stór tjón nokkur staðar, en víða urðu skemmdir þannig að heildartjónið er töluvert. Engin brenndist vegna lekans.

Að sögn Orkuveitu Reykjavíkur gerðist þetta vegna bilunar, sem rakin er til höggs, sem kom á raforkukerfið og sló út dælum í hitaveitunni.

Það olli þrýstingssveiflum í hitaveitunni sem reyndist sumum lögnum ofviða. Af sömu ástæðum varð þrýstingsfall í Hitaveitu Þorlákshafnar í gærkvöldi.

Starfsmenn Orkuveitunnar unnu að viðgerðum í alla nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×