Kurteisisgjafir Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 7. september 2011 11:00 Gjafir geta verið gríðarlega vandasamt fyrirbæri. Sá sem gefur eða þiggur getur orðið fastur í svo flóknu mynstri að það væri hrein guðsgjöf að losna úr því. Bolli Þorleiksson var með þetta á hreinu enda var það hans fyrsta verk, þegar hann var búinn að stinga undan Kjartani Ólafssyni, að bjóða þessum fóstbróður sínum og frænda hesta að gjöf. Hvað átti Kjartan að gera þá? Taka þá fegins hendi og segja: „Jæja, ég get þá alla vega riðið?“ Nei, það sjá það allir hversu flókið þetta getur verið. Ég hef það á tilfinningunni að gjafaskipti séu einfaldari á Íslandi nú á dögum, en hins vegar eru þau enn partur af svo flókinni fléttu hér í Andalúsíu að þau eru um það bil að fléttast mér um háls. Fyrir utan þessar gjafir sem við Íslendingar þekkjum að góðu einu eru hér gefnar eins konar kurteisisgjafir. Tilefnin eru nafnadagar, einfaldar heimsóknir, heimkoma eftir ferðalög og ótal önnur tilefni sem ég kann enn ekki skil á. Þetta gjafmildi hljómar ágætlega en þó myndi ég gefa mikið fyrir það að fá engar kurteisisgjafir og þurfa því ekkert að gefa nema þá þegar ég sé eitthvað sem ég tel alveg tilvalda gjöf fyrir einhvern jafnvel þótt tilefnið skorti. Fyrir það fyrsta þykir mér svo óhemju leiðinlegt að versla að ég er viss um að ég væri tíu árum yngri í hjarta mínu ef ég hefði aldrei þurft að kaupa kurteisisgjöf. Síðan eru þessar gjafir venjulega óttalegur hégómi og hálfgert rusl. Það er nefnilega eins og fólk vilji ekki gefa þér það sem þú hefur áhuga á heldur eitthvað sem þú átt að hafa áhuga á. Til dæmis gefur enginn mér vínflösku, sem þó er örugg leið til að gleðja Íslending. Geisladisk gefur ekki nokkur maður hér og hvað þá aðgöngumiða á nautaat eða í leikhús. Hins vegar finnst fólki alveg tilvalið að gefa eitthvert glingur, rándýrt bindi, slaufu eða ermahnappa og til að undirstrika andleysið fær maður líka eldhúsáhöld. Það versta af öllu er að ég er engu fundvísari á gjafir sem gleðja. Til dæmis færði ég einum félaga mínum brennivínsflösku þegar ég kom hingað um daginn úr Íslandsreisunni. Félaginn bauð mér inn í stofu. „Má ekki bjóða þér eitthvað að drekka?“ sagði hann svo og náði í brennivínsflöskuna sem ég gaf honum í fyrra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Gjafir geta verið gríðarlega vandasamt fyrirbæri. Sá sem gefur eða þiggur getur orðið fastur í svo flóknu mynstri að það væri hrein guðsgjöf að losna úr því. Bolli Þorleiksson var með þetta á hreinu enda var það hans fyrsta verk, þegar hann var búinn að stinga undan Kjartani Ólafssyni, að bjóða þessum fóstbróður sínum og frænda hesta að gjöf. Hvað átti Kjartan að gera þá? Taka þá fegins hendi og segja: „Jæja, ég get þá alla vega riðið?“ Nei, það sjá það allir hversu flókið þetta getur verið. Ég hef það á tilfinningunni að gjafaskipti séu einfaldari á Íslandi nú á dögum, en hins vegar eru þau enn partur af svo flókinni fléttu hér í Andalúsíu að þau eru um það bil að fléttast mér um háls. Fyrir utan þessar gjafir sem við Íslendingar þekkjum að góðu einu eru hér gefnar eins konar kurteisisgjafir. Tilefnin eru nafnadagar, einfaldar heimsóknir, heimkoma eftir ferðalög og ótal önnur tilefni sem ég kann enn ekki skil á. Þetta gjafmildi hljómar ágætlega en þó myndi ég gefa mikið fyrir það að fá engar kurteisisgjafir og þurfa því ekkert að gefa nema þá þegar ég sé eitthvað sem ég tel alveg tilvalda gjöf fyrir einhvern jafnvel þótt tilefnið skorti. Fyrir það fyrsta þykir mér svo óhemju leiðinlegt að versla að ég er viss um að ég væri tíu árum yngri í hjarta mínu ef ég hefði aldrei þurft að kaupa kurteisisgjöf. Síðan eru þessar gjafir venjulega óttalegur hégómi og hálfgert rusl. Það er nefnilega eins og fólk vilji ekki gefa þér það sem þú hefur áhuga á heldur eitthvað sem þú átt að hafa áhuga á. Til dæmis gefur enginn mér vínflösku, sem þó er örugg leið til að gleðja Íslending. Geisladisk gefur ekki nokkur maður hér og hvað þá aðgöngumiða á nautaat eða í leikhús. Hins vegar finnst fólki alveg tilvalið að gefa eitthvert glingur, rándýrt bindi, slaufu eða ermahnappa og til að undirstrika andleysið fær maður líka eldhúsáhöld. Það versta af öllu er að ég er engu fundvísari á gjafir sem gleðja. Til dæmis færði ég einum félaga mínum brennivínsflösku þegar ég kom hingað um daginn úr Íslandsreisunni. Félaginn bauð mér inn í stofu. „Má ekki bjóða þér eitthvað að drekka?“ sagði hann svo og náði í brennivínsflöskuna sem ég gaf honum í fyrra.