Erlent

Stjórnvöld Sri Lanka sökuð um stríðsglæpi

Tamil Tígrar á Sri Lanka. Myndin er úr safni.
Tamil Tígrar á Sri Lanka. Myndin er úr safni.
Í skýrslu sem gerð var fyrir Sameinuðu þjóðirnar koma fram ásakanir um að stjórnvöld á Sri Lanka hafi framið stríðsglæpi árið 2009. Þá eru Tamíl tígrar sakaðir um að nota almenning sem mennska skildi.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem var gerð fyrir Ban Ki-Moon framkvæmdastjóra samtakanna, kemur fram að ríkisstjórn Sri Lanka sé grunuð um meiriháttar stríðsglæpi. Öryggissveitir eru meðal annars sakaðar um að hafa myrt tugi þúsundi borgara frá janúar til maí árið 2009. Stríðinu á milli Tamíl tígra og stjórnvalda lauk þar í landi í maímánuðinum.

Tamíl tígrar eru sakaðir um að hafa notað fólk sem mennska skildi gegn árásum stjórnarhermanna og skotið þá sem reyndu að flýja. Ljóst er að mannfallið var gríðarlegt þessa síðustu mánuði átakanna árið 2009.

Ban Ki-Moon vill opinbera rannsókn á meintum stríðsglæpum en Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki heimild til þess að rannsaka slíkar ásakanir nema vilji sé til þess hjá ríkisstjórn viðkomandi ríkis. Stjórnvöld á Sri Lanka segja skýrsluna hlutdræga og byggða á fölskum ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×