Bakþankar

Fimm mánuðir í helvíti

Atli Fannar Bjarkason skrifar

Í byrjun árs tók ég þá ákvörðun að smakka ekki áfengi í janúar. Ég er maður öfganna og þessi saklausi mánuður hefur stökkbreyst í fimm langa mánuði þar sem svo lítið sem einn dropi af dýrðlegum gerjuðum unaðsvökva má ekki sleppa inn fyrir varir mínar. 15 dagar búnir - 136 eftir. Hvað hef ég gert?

Skömmu eftir að ákvörðunin var handsöluð áttaði ég mig á því að ég hafði skapað skrímsli. Fram undan er gósentíð áfengisunnandans: Þorrablót, árshátíðir og afmæli - þar með talið mitt. Svo ég tali ekki um vorið sem er handan við hornið með tilheyrandi rennandi blautum grillveislum.

Ákvörðunin hefur vakið ótrúlega hörð viðbrögð. Vinir mínir telja að ég hafi misst vitið, enda hefur eldheitt ástarsamband mitt og bjórsins verið það sem flestir töldu að myndi endast. Ég viðurkenni reyndar að ýmis teikn eru á lofti um að geðheilsu minni hafi hrakað; ég er farinn að stunda íþróttir reglulega, hættur að drekka kók og ég man ekki hvenær ég borðaði hamborgara síðast. En áfengispásan á sér því miður ekki svo djúpstæðar rætur.

Ég hef nefnilega aldrei fundið fyrir miskunnarlausum eyðileggingarmætti áfengis að neinu ráði, þótt ég hafi veitt freistingagyðjunni Atë nokkuð frjálsan aðgang að líkama mínum undanfarin ár. Allavega um helgar. Atë er gríska og stendur fyrir rústir, heimsku og blekkingu. Taumlausri ofneyslu á áfengi verður ekki betur lýst, en reynsla mín hefur þó að mestu snúist um skemmtun, læti og gráa, þögula sunnudaga.

Eins óspennandi og það kann að hljóma er þessi ákvörðun nánast einungis tekin til að sjá hvort þetta sé ekki örugglega hægt. Líkama mínum gæti ekki verið meira sama um áfengisneyslu mína, þó að lifrin sé örugglega fegin að fá verðskuldaða hvíld. Félagslegi þátturinn er erfiðari viðfangs þar sem flestir fundir vina minna hefjast á því fallega hljóði sem heyrist þegar dós er opnuð. Ég á eflaust eftir að stara niðurlútur á glitrandi glös félaga minna næstu mánuði og velta vöngum yfir ástæðum sjálfspíningarhvatarinnar.

Meira ruglið. Fyrir utan augljósa líkamlega, andlega og fjárhagslega kosti er þetta heimskulegasta ákvörðun sem ég hef tekið og næstu fimm mánuðum eyði ég í helvíti. Sjáumst þar.








×