Vitundarvakning um umhverfismál Steinunn Stefánsdóttir skrifar 9. júní 2011 06:00 Akstur utan vega hefur verið viðvarandi vandamál hér á landi. Því miður hafa allt of margir ökumenn jeppa og annarra vélknúinna ökutækja of mikið og of lengi sýnt viðkvæmu gróðurfari á hálendi Íslands vanvirðingu og yfirgang á ferðum sínum. Víða sjást merki þessa í náttúru Íslands enda getur það tekið náttúruna ár og upp í áratugi að jafna sig þegar djúp hjólför eru komin í viðkvæmt land. Vísbendingar sem fram koma í nýrri samantekt Umhverfisstofnunar um að nú dragi heldur úr utanvegaakstri eru því fagnaðarefni, en á síðustu misserum hefur verið unnið eftir aðgerðaáætlun umhverfisráðuneytisins sem beinist að því að draga úr utanvegaakstri. Ekki er úr vegi að setja þessa þróun í stærra samhengi, því líklega hefur umræða um umhverfismál almennt ekki verið meiri og frjórri hér á landi í annan tíma. Skemmst er að minnast sorpbrennslumálanna sem hafa verið í fréttum frá áramótum. Sú umfjöllun neyddi nokkrar sveitarstjórnir í landinu til að hætta að beina blinda auganu að alvarlegri díoxínmengun sem stafað hefur frá sorpbrennslum. Raunar má segja að bylting hafi orðið í viðhorfi almennings til sorpmála í landinu á sama tíma og mörg sveitarfélög hafa bætt mjög meðferð á úrgangi. Aukin endurvinnsla og endurnýting á sorpi hefur dregið talsvert úr þeim úrgangi sem farga þarf, þótt þarna megi vitanlega gera mun betur. Þótt enn sé nær allur bílafloti landsmanna knúinn bensíni og dísilolíu eru teikn um að þess sé ekki langt að bíða að endurnýtanleg orka verði valkostur sem æ fleiri mun þykja fýsilegur. Frumvarp um framkvæmdasjóð ferðamannastaða hefur verið til umræðu á yfirstandandi þingi og verður vonandi að lögum. Með þeim lögum kemur til stóraukið fjármagn til uppbyggingar og viðhalds á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem aðstæðum hefur víða verið verulega ábótavant í mörgum skilningi. Auk þess sem öryggi ferðamanna hefur ekki verið nægilega tryggt hafa margir fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins alls ekki verið nægilega varðir gegn þeim ágangi sem stríður straumur ferðamanna veldur óneitanlega í viðkvæmu landi. Ósnortin náttúra og óspillt ásamt hreinu vatni og lofti er ríkur þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Svo ríkur kannski að hér var fólk seinna að grípa þá umhverfisbylgju sem svo sannarlega hefur sett mark sitt bæði á líf almennings og öll stjórnmál um heim allan undanfarna áratugi. Í okkar stóra og strjálbýla landi var talið að engin umhverfisvá steðjaði að. Nú virðist sem þjóðin sé að vakna af þyrnirósarsvefninum og átta sig á því að hér þurfum við að vernda viðkvæma náttúru með því að umgangast hana af gætni og virðingu, gæta að útblæstri og annars konar loftmengun og draga úr sorpi með aukinni endurvinnslu. Þetta er góð þróun og ber vott um þroska þjóðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Akstur utan vega hefur verið viðvarandi vandamál hér á landi. Því miður hafa allt of margir ökumenn jeppa og annarra vélknúinna ökutækja of mikið og of lengi sýnt viðkvæmu gróðurfari á hálendi Íslands vanvirðingu og yfirgang á ferðum sínum. Víða sjást merki þessa í náttúru Íslands enda getur það tekið náttúruna ár og upp í áratugi að jafna sig þegar djúp hjólför eru komin í viðkvæmt land. Vísbendingar sem fram koma í nýrri samantekt Umhverfisstofnunar um að nú dragi heldur úr utanvegaakstri eru því fagnaðarefni, en á síðustu misserum hefur verið unnið eftir aðgerðaáætlun umhverfisráðuneytisins sem beinist að því að draga úr utanvegaakstri. Ekki er úr vegi að setja þessa þróun í stærra samhengi, því líklega hefur umræða um umhverfismál almennt ekki verið meiri og frjórri hér á landi í annan tíma. Skemmst er að minnast sorpbrennslumálanna sem hafa verið í fréttum frá áramótum. Sú umfjöllun neyddi nokkrar sveitarstjórnir í landinu til að hætta að beina blinda auganu að alvarlegri díoxínmengun sem stafað hefur frá sorpbrennslum. Raunar má segja að bylting hafi orðið í viðhorfi almennings til sorpmála í landinu á sama tíma og mörg sveitarfélög hafa bætt mjög meðferð á úrgangi. Aukin endurvinnsla og endurnýting á sorpi hefur dregið talsvert úr þeim úrgangi sem farga þarf, þótt þarna megi vitanlega gera mun betur. Þótt enn sé nær allur bílafloti landsmanna knúinn bensíni og dísilolíu eru teikn um að þess sé ekki langt að bíða að endurnýtanleg orka verði valkostur sem æ fleiri mun þykja fýsilegur. Frumvarp um framkvæmdasjóð ferðamannastaða hefur verið til umræðu á yfirstandandi þingi og verður vonandi að lögum. Með þeim lögum kemur til stóraukið fjármagn til uppbyggingar og viðhalds á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem aðstæðum hefur víða verið verulega ábótavant í mörgum skilningi. Auk þess sem öryggi ferðamanna hefur ekki verið nægilega tryggt hafa margir fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins alls ekki verið nægilega varðir gegn þeim ágangi sem stríður straumur ferðamanna veldur óneitanlega í viðkvæmu landi. Ósnortin náttúra og óspillt ásamt hreinu vatni og lofti er ríkur þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Svo ríkur kannski að hér var fólk seinna að grípa þá umhverfisbylgju sem svo sannarlega hefur sett mark sitt bæði á líf almennings og öll stjórnmál um heim allan undanfarna áratugi. Í okkar stóra og strjálbýla landi var talið að engin umhverfisvá steðjaði að. Nú virðist sem þjóðin sé að vakna af þyrnirósarsvefninum og átta sig á því að hér þurfum við að vernda viðkvæma náttúru með því að umgangast hana af gætni og virðingu, gæta að útblæstri og annars konar loftmengun og draga úr sorpi með aukinni endurvinnslu. Þetta er góð þróun og ber vott um þroska þjóðar.