Innlent

Ís féll á fætur ferðamanns í Kverkfjöllum - engin þyrla til reiðu

Það tekur björgunarmenn um sex til átta klukkustundir að komast á staðinn og þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar er frá er verið að skoða hvort hægt sé að fá aðrar þyrlur til að flytja björgunarmenn á staðinn
Það tekur björgunarmenn um sex til átta klukkustundir að komast á staðinn og þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar er frá er verið að skoða hvort hægt sé að fá aðrar þyrlur til að flytja björgunarmenn á staðinn Mynd úr safni / Vilhelm
Rétt fyrir klukkan tvö í dag voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar kallaðar út til aðstoðar við erlendan ferðamann í Kverkfjöllum. Maðurinn, sem er svissneskur, er á ferð með tveimur samlöndum sínum og höfðu þeir gengið upp í Kverkfjöll á Vatnajökli og voru þau að skoða þar íshella. Svo virðist sem ís hafi fallið á fætur mannsins og telja samferðamenn hann vera brotinn á báðum fótum.

Það tekur björgunarmenn um sex til átta klukkustundir að komast á staðinn og þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar er biluð er verið að skoða hvort hægt sé að fá aðrar þyrlur til að flytja björgunarmenn á staðinn og þá jafnvel hinn slasaða til byggða.

Fréttastofa greindi frá því fyrr í dag að gert er ráð fyrir að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF komist í gagnið að nýju um kvöldmatarleytið á morgun, en beðið er eftir varahlutum í hana frá Noregi. Hin þyrla gæslunnar, TF-GNÁ, er síðan í reglubundnu viðhaldi. Því er engin þyrla á vegum Landhelgisgæslunnar til reiðu.


Tengdar fréttir

Engin þyrla til taks hjá landhelgisgæslunni

Bilun kom upp í TF-LÍF þyrlu Landhelgisgæslunnar í gær. Hin þyrlan, TF-GNÁ er í reglubundnu viðhaldi og verður ekki nothæf fyrr en í næsta mánuði. Því er engin þyrla til taks eins og staðan er nú því senda þarf eftir varahlut í LÍF frá útlöndum.

Þyrlan í gagnið um kvöldmatarleytið á morgun

Gert er ráð fyrir að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF komist í gagnið að nýju um kvöldmatarleytið á morgun. Eins og greint var frá í morgun bilaði þyrlan í gær og hin þyrlan TF-GNÁ er í reglubundnu viðhaldi. Því er engin þyrla til taks hjá Gæslunni eins og staðan er í dag. Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Gæslunnar segir að varahlutur hafi verið pantaður frá Noregi og er hann á leið til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×