Innlent

Leigubílstjóri fann barnið í bílstólnum

Það var leigubílstjóri sem var að þrífa bíl sinn á Seltjarnarnesi sem fann ungabarnið sem gleymdist út á gangstétt í morgun. Foreldrarnir gleymdu barninu þegar þeir fóru að bera út blöð klukkan sex í morgun. Leigubílsstjórinn kallaði til lögregluna sem rannsakaði málið þar til foreldrarnir gáfu sig fram.

Lögreglan í Reykjavík fékk tilkynningu klukkan tuttugu mínútur fyrir sex í morgun um ungabarn í barnabílsstól sem var einsamalt út á gangstétt á Seltjarnarnesi. Um var að ræða stúlkubarn í bleikum galla og vel búið með pela. Tilkynningin kom frá leigubílsstjóra sem var að þrífa bíl sinn skamt frá og varð starsýnt á barnabílstólinn.

Í fyrstu hélt hann að einhver hefði gleymt barnabílstól út á gangstétt en svo sá hann fót gægjast undan stólnum og hreyfingu. Þegar hann hafði beðið í góða stund og enginn kom út úr húsinu til að vitja barnsins fór hann að gruna að eitthvað misjafnt gæti verið á seyði. Leigubílsstjórinn kallaði á lögregluna sem kom á staðinn og leit málið frá upphafi alvarlegum augum.

Tæknideild var kölluð út til að rannsaka vettvanginn auk barnaverndarnefndar. Laust eftir klukkan sjö í morgun tók rannsókn málsins aðra stefnu þegar foreldrarnir hringdu í lögregluna og sögðust hafa týnt barninu sínu. Lögreglumaður sem fréttastofa ræddi við sagði málið nú úr höndum lögreglunnar, líklega væri barnið aftur komið til foreldra sinna og það sé undir barnaverndarnefnd og félagsmálayfirvöldum að ákveða næstu skref  Samkvæmt heimildum fréttastofu var barnið vel útbúið í bílstólnum en þó orðið kalt þegar leigílsstjórinn kom að því og kallaði á hjálp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×