Innlent

Fær 5,5 milljónir króna í skaðabætur

Talið er að konan hafi unnið í heilsuspillandi umhverfi þar sem öryggiskröfur voru ekki uppfylltar.
Talið er að konan hafi unnið í heilsuspillandi umhverfi þar sem öryggiskröfur voru ekki uppfylltar.
Ríkið og fyrirtækið Agar ehf. voru dæmd í Héraðsdómi Vesturlands 10. ágúst til að greiða rúmar 5,5 milljónir króna auk vaxta í bætur til konu sem var starfsmaður fyrirtækisins. Talið er sannað að konan hafi orðið fyrir heilsutjóni við störf sín. Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta.

Konan leitaði fjórum sinnum til læknis á árunum 1997 til 2000 vegna hósta og öndunarerfiðleika og tvisvar árið 2000 vegna höfuðverkja og ógleði. Engin niðurstaða fékkst um hvað amaði að. Haustið 2005 var konan greind með astma og ofnæmiskvef. Ljóst þykir að bein tengsl voru á milli veikinda hennar og vanbúnaðar á vinnustað hennar hjá Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins á Ísafirði.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að það sé fullsannað með framlögðum gögnum, svo sem athugasemdum Vinnueftirlitsins og úttekt verkfræðinga, að loftræsting og aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið ófullnægjandi. Konan vann meðal annars daglega við ætisræktun og hefði vinnuveitendum borið að tryggja henni vinnuumhverfi sem ekki væri heilsuspillandi.

Þá hélt konan því einnig fram að henni hafi aldrei verið úthlutað persónuhlífum til hlífðar öndunarfærum sínum. Gerð hafi verið athugasemd við skort á persónuhlífum í úttekt Vinnueftirlitsins árið 2004 en engar úrbætur hafi átt sér stað. Var það niðurstaða héraðsdóms að ríkið og Agar bæru bótaábyrgð á tjóni stefnanda.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×