Innlent

Kviknaði í einu verslun Hofsóss í morgun

Hofsós. Mynd Feykir.
Hofsós. Mynd Feykir.
Eldur kom upp í verslunarhúsnæði KS á Hofsósi í Skagafirði í morgun en verslunin er eina verslunin á staðnum. Líkur eru á að eldurinn hafi komið upp einhvern tíma í nótt en hann hafi slokknað af sjálfu sér samkvæmt fréttavefnum Feykir.is.

„Við teljum að eldurinn hafi komið upp í frystiskáp og síðan breiðst út um búðina. Það hefur verið töluverður eldur þarna en hann hefur síðan að líkindum koðnað niður af súrefnisskorti,“ segir Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki í samtali við Feyki.

Að sögn Vernharðs kom starfsmaður til vinnu í morgun og varð var við reyk og mikla brunalykt þegar hann opnaði inn í búðina. „Starfsmaðurinn brást hárrétt við með því að loka strax aftur og hafa samband við 112,“ segir Vernharð.

Allt innvols verslunarinnar er ónýtt og segir Vernharð ljóst að íbúar á Hofsósi þurfi að gera aðrar ráðstafanir til þess að versla í matinn.

Ólafur Sigmarsson, hjá KS, segir að tjónið sé mikið. Húsið sé í lagi að utan en inni sé allt ónýtt. Aðspurður um hvort KS muni grípa til ráðstafana til að Hofsósingar geti nálgast nauðsynjavörur segir hann að það verði skoðað. „Við reynum að finna út úr því, en við getum svo sem ekki svarað neinu meira til um það að svo stöddu enda gerðist þetta bara í nótt eða morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×