Sport

Úr fangelsi í NFL-deildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jimmy Wilson í búningi Miami Dolphins.
Jimmy Wilson í búningi Miami Dolphins. Nordic Photos / Getty Images
Fyrir rúmum tveimur árum sat Jimmy Wilson í fangelsi ákærður fyrir morð. Í dag er hann á mála hjá Miami Dolphins og mun keppa í NFL-deildinni í vetur.

Wilson var valinn í nýliðavali NFL-deildarinnar í vor og komst í gegnum lokaniðurskurð liðsins nú um helgina. Dolphins mætir New England í fyrstu umferð nýja tímabilsins í nótt.

„Þetta er mikil blessun, sérstaklega miðað við það sem ég hef mátt þola,“ sagði hann við bandaríska fjölmiðla í dag.

Wilson var handtekinn í júní árið 2007 og ákærður fyrir að hafa myrt kærasta frænku sinna. Lögreglan hélt því fram að þeir hefðu verið að rífast og að Wilson hafi farið inn á heimili mannsins og skotið hann til bana með riffli.

Wilson bar fyrir sig sjálfsvörn en rétta þurfti tvívegis í málinu, þar sem kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í fyrra skiptið. Hann var svo sýknaður í síðara skiptið, í júlí árið 2009.

Hann sat þó í fangelsi allan þennan tíma, þar sem hann hafði ekki efni á að greiða tryggingargjaldið sem dómsyfirvöld ákváðu - alls tvær milljónir dollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×