Innlent

Össur: Evrópa þarf að eiga stefnumót við veruleikann

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, segir að langvarandi frost á erlendum mörkuðum geti haft áhrif á viðskiptakjör Íslendinga. Ísland sé hins vegar betur í stakk búið en önnur ríki til að takast á við erfiðleika.

„Þessar miklu hræringar munu hafa áhrif á öll ríki heims. En svo merkilegt sem það er verða áhrifin kannski minnst á ísland. Það er sennilega ekkert ríki jafn vel varið og Ísland. Þar kemur tvennt til. Gjaldeyrishöftin halda okkur frá þessum fossandi flaumi sem nú streymir um fjármálamarkaði. Og svo hitt að ríkisstjórnin var ekki allskostar óviðbúin þessu. Við tókum alla þá möguleika sem var uppi til að afla okkur gjaldeyris og getum staðið straum af afborgunum til 2015, 2016," segir Össur spurður um slæma stöðu margra Evrópuríkja og lækkun á lánshæfismati Bandaríkjanna.

En hvaða áhrif hefði fall á gengi evrunnar á hag Íslendinga?

„Þetta gæti leytt til þess að það verði minna keypt af þjónustu af Íslendingum. Hefði áhrif á ferðamennsku á næstu árum og minna keypt af vörum sem við flytjum út."

Spurður hvort annað fjármálahrun sé jafnvel í vændum segir Össur það hafa komið íslenskum stjórnvöldum á óvart að þegar íslenska kerfið féll hafi önnur Evrópuríki, líkt og Ítalía í raun verið verr stödd en Íslendingar.

„Við gerðum okkur því grein fyrir því að það væri nauðsynlegt fyrir evrópuríkin að eiga stefnumót við veruleikann og því fyrr sem því stefnumóti líkur því betra fyrir allan heiminn og ekki síst Ísland. Það er algerlega nauðsynelgt að evrópsku ríkin hreinsi til í sínum fjármálum."

En er þá eitthvað fyrir íslendinga á evrusvæðið að gera?

„Fyrir framtíð Íslands og Evrópu eru þessar framkvæmdir sem nú er ráðist í óhjákvæmilegar. Og ég tel að evran komi miklu sterkari út úr því en hún er í dag og það eru góðar fréttir ekki bara fyrir Evrópu og heiminn heldur ekki síst fyrir Ísland sem er að velta fyrir sér að gerast aðili að myntbandalaginu því ef við yrðum aðilar að ESB eigum við kost á því að taka upp evruna það er í augum margra eftirsóknarvert að því gefnu að það sé búið að taka til á fjármagnsmörkuðum Evrópu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×