Innlent

Kanna hvort hægt sé að lyfta rútunni með belgjum

Aðeins sést í eitt dekk rútunnar.
Aðeins sést í eitt dekk rútunnar. MYND/Oddur Eiríksson.
Kannað verður hvort hægt sé að lyfta tékkneskri rútu af botni Blautulóna með loftbelgjum, og draga hana svo að landi, en þar hefur hún verið á bóla kafi síðan á föstudag.

Leiðangur á vegum Köfunarþjónustunnar lagði upp frá Reykjavík í morgun með ýmsan björgunarbúnað og mun hann kanna aðstæður síðdegis, en Blautulón eru um tíu kílómetra norður af fjallabaksleið nyrðri.

Lögð verður áhersla á að hlífa gróðri á svæðinu eins og hægt er og því þykja loftbelgirnir, eða púðarnir, vel koma til greina. Farþegarnir 22 og bílstjórinn, sem er Tékki, gistu á Vík í nótt, aðra nóttiona í röð og ætla líklega að sjá til í hvaða ástandi rútan verður þegar hún kemst á þurrt.

Bergvatn er í Blautulónum en ekki jökulvatn, þannig að hugsanlega hafa orðið litlar eða engar skemmdir á vélbúnaði. Brýnt er að ná bílnum upp sem fyrst því töluvert af dísilolíu er í geymum hans. Ekki liggur endanlega fyrir hver muni greiða kostnað við björgunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×