Innlent

Hrædd um kóp í Kópavogi

salome@365.is skrifar
Kópurinn brást ekkert við snertingu og þótti Sonju það áhyggjuefni.
Kópurinn brást ekkert við snertingu og þótti Sonju það áhyggjuefni. Mynd/Sonja Óskarsdóttir
Sonja Óskarsdóttir, íbúi í Kópavoginum, segist hafa miklar áhyggjur af agnarsmáum kóp sem hún fann þar í fjöru skammt frá heimili sínu síðastliðinn þriðjudagsmorgun. Hún segist fyrst hafa haldið að mamma hans hefði aðeins skroppið frá að finna æti, en nú séu liðnir rúmir tveir dagar og alltaf sé kópurinn þar aleinn og umkomulaus.



„Ég kem hérna á morgnana, ég kem hérna á daginn, ég kem hérna á miðnætti og hann er alltaf hérna í fjörunni.“ segir Sonja sem reyndi að gefa kópnum að borða en án árangurs. Hún segir það hafa valdið sér áhyggjum hversu bjargarlaus og veiklulegur hann hafi virst en hann hafi verið alveg viðbragðalaus þegar hún klappaði honum og tók hann upp.



Lögreglan og starfsmenn Húsdýragarðsins kíktu á kópinn fyrr í dag en Húsdýragarðurinn tók þá ákvörðun að taka kópinn ekki að sér. Starfsmaður garðsins sagði að enn væri svolítil fita utan á honum og mat það svo að í tilviki kópsins væri ráðlegast að leyfa náttúrunni að ráða ferðinni.




Sonja var á leið í fjöruna þegar hún ræddi við fréttastofu en þegar þangað var komið var kópurinn hvergi sjáanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×