Innlent

SA segja Ögmund fara villu vegar

Samtök atvinnulífsins segja Ögmund Jónasson tala gegn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um vegaframkvæmdir
Samtök atvinnulífsins segja Ögmund Jónasson tala gegn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um vegaframkvæmdir
Samtök atvinnulífsins gagnrýna harðlega málflutning innanríkisráðherra í samgöngumálum og segja hann bókstaflega tala gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í pistli sem birtist á vef samtakanna er gengið svo langt að segja: „Verkstjórar stjórnarsamstarfsins hljóta að bregðast við og sjá til þess að innanríkisráðherra snúi af villu síns vegar. Takist það ekki er vart annar kostur en að fela öðrum að fara með samgöngumálin í ríkisstjórninni."

Samtökin benda á að ríkisstjórnin hafi gefið út, í tengslum við gerð kjarasamninga þann 5. maí, að áfram verði unnið að útfærslu tillagna um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi og fjármögnun þeirra.

Þá segir í pistlinum: „Yfirlýsingin er gefin af ríkisstjórninni allri og einstök atriði hennar eru samin með vitund og vilja viðkomandi fagráðherra. Þannig hefur innanríkisráðherra sem fer með samgöngumálin samþykkt og jafnvel samið sjálfur þann hluta yfirlýsingarinnar sem um vegaframkvæmdirnar fjalla. Nú hefur það komið skýrt fram á síðustu dögum að ráðherrann er á móti eigin yfirlýsingu og ætlar ekkert með hana að gera. Þá vaknar spurningin hvort ríkisstjórnin í heild og þingmenn hennar sætti sig við að ráðherrann geri alla ríkisstjórnina að ómerkingi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×