Innlent

Ólafur Ragnar hrósar hinni umdeildu Söruh Palin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kom blaðamanni Alaska Dispatch nokkuð á óvart á dögunum þegar hann hrósaði í hástert Söruh Palin, fyrrverandi ríkisstjóra Alaska og varaforsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum. Sem kunnugt er var Ólafur Ragnar eini þjóðarleiðtoginn sem Palin hafði hitt þegar hún bauð sig fram til varaforseta.

„Þegar við hittumst var hún nýorðinn ríkisstjóri og við ræddum ekkert um landsmálin," segir Ólafur í viðtali við Alaska Dispatch, en hann er staddur á fjölþjóðlegri ráðstefnu í Alaska um nýjar siglingaleiðir vegna bráðnunar íss á Norðurslóðum.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag, mánudaginn 20. júní, ræðu á setningarathöfn fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Alaska. Viðfangsefni hennar er að ræða nauðsyn framkvæmda og sérstakra framtíðaráætlana með tilliti til nýrra siglingaleiða sem bráðnun íss á Norðurslóðum mun innan tíðar hafa í för með sér.

Ólafur segir að þau Palin hafi rætt um möguleika Alaska á sviði jarðvarmaorku. „Ég skynjaði hjá henni hæfileika á sviði stjórnmála, pólitíska hæfni sem fólk annað hvort hefur eða ekki. Þetta er eins og tónlistarhæfileikar. Hvort sem fólk er sammála henni eða ekki þá er það skýrt merki um hæfileika henna að á aðeins nokkrum árum hefur hún farið frá því að vera embættismaður í Alaska til þess að vera eitt áhrifamesta afl stjórnmálanna," segir Ólafur Ragnar.

Blaðamaður tekur fram í greininni að aðdáun Ólafs Ragnars á Palin kunni að vekja sérstaka kátínu meðal vinstri sinnaðra stjórnmálamanna í Evrópu, en Palin er eins langt til hægri í hinu pólitíska litrófi og hægt er.

Spurður hvað honum finnist um stjórnmálaskoðanir Palin segir Ólafur kíminn við blaðamann Alaska Dispatch: „Við skulum ekkert vera að ræða það neitt," og beinir umræðuefninu snarlega að loftslagsbreytingum og grænni orku.

Sjá greinina í Alaska Dispatch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×