Innlent

Bónus vill afnema skilarétt á kjöti

Líklegar afleiðingar þess að afnema skilaréttinn er minna vöruúrval en jafnframt minni sóun
Líklegar afleiðingar þess að afnema skilaréttinn er minna vöruúrval en jafnframt minni sóun Mynd úr safni
Bónus vill afnema allan skilarétt fyrirtækisins á kjötvörum frá og með 1. nóvember. Þá taka í gildi reglur samkvæmt nýrri matvælalöggjöf sem meðal annars snerta rekjanleika búfjárafurða. Bændablaðið greinir frá því í dag að Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss hafi sent öllum kjötbirgjum fyrirtækisins erindi þar sem þetta kemur fram.

Matvöruverslanir hafa almennt unnið eftir þeirri vinnureglu í samskiptum við kjötbirgja að skilaréttur sé á kjöti sem ekki selst í verslunum.

Guðmundur segir í samtali við Bændablaðið að þeir sem hafa verið með skilarétt í Bónus hafi nánast haft frjálsan aðgang að verslunum, þeir panti sjálfir og ákveði magnið með tilliti til eigin birgðastöðu.

„Ef þeir eiga mikið af bjúgum þá senda þeir mikið af bjúgum í búðirnar sem dæmi. Þeir gera þetta nánast eftir sínu höfði," segir Guðmundur. „Það sem mun hins vegar gerast ef skilarétturinn verður afnuminn, þá mun verslunin sjálf ákveða vöruvalið, panta sjálf og bera þá rýrnun sem verður," segir hann í Bændablaðinu.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, fagnar frumkvæði Bónuss. Hann telur þetta jákvætt skref sem muni minnka sóun í keðjunni frá framleiðanda til neytenda.

Skiptar skoðanir eru þó um skilaréttinn og segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðenska, sem þó er í litlum viðskiptum við Bónus, að hann óttist að vöruúrval í verslunum muni minnka ef skilarétturinn verður afnuminn.

Lesa Bændablaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×