Veiði

Bjarni gefur kost á sér áfram til formennsku SVFR

Karl Lúðvíksson skrifar
Skrifstofu SVFR hefur borist tilkynning frá Bjarna Júlíussyni formanni SVFR um að hann gefi áframkost á sér til formennsku í SVFR. Hana má lesa hér að neðan:

Ágætu félagar.

Þegar ég var fenginn til þess að gefa kost á mér á ný til formennsku í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur í aðdraganda aðalfundar í nóvember 2010 var ljóst að í mikið óefni stefndi í rekstri félagsins sem verið hafði þungur árin á undan. Mitt hlutverk var að reyna eftir mætti, með stjórn félagsins, að snúa rekstrinum til betri vegar. Þetta starfsár hefur verið afskaplega annasamt, ekki síst þegar litið er til fjármálastjórnunar félagsins. Ég hef, ásamt stjórn SVFR, þurft að taka erfiðar ákvarðanir með hag félagsins að leiðarljósi. Staðan er nú þannig að reksturinn er kominn í jafnvægi og lagður hefur verið grunnur að mörgum breytingum sem eiga eftir að skila sér í bættum hag þegar fram líða stundir. Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á skrifstofu félagsins, nýr framkvæmdastjóri hefur tekið til starfa ásamt bókara og hafa nú þegar verið gerðar breytingar á bókhaldi félagsins með það að markmiði að upplýsingaflæði til stjórnar og félagsmanna verði viðunandi. Fyrir stjórn til að taka réttar ákvarðanir og fyrir félagsmenn til að hafa rétta mynd af stöðu og framtíðarhorfum félagsins. Viðsnúningur hefur orðið í starfsemi félagsins hvað varðar rekstur og fjárhagslega umsýslu og útlit er fyrir að reksturinn verði í jafnvægi þegar árið verður gert upp. Ég tel að þar hafi stjórn og starfsfólk Stangaveiðifélags Reykjavíkur unnið þrekvirki, enda nutum við dyggrar aðstoðar traustra félagsmanna í fulltrúaráði félagsins. Útlitið var sannarlega ekki bjart, eins og þeir muna sem sátu síðasta aðalfund félagsins 2010 og fengu þau skilaboð að eigið fé félagsins væri nánast uppurið. Nú er aftur farið að birta til hjá okkar ágæta félagi!

Þegar ég var beðinn um að taka við formennsku í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur 2010 var það ætlun mín að sinna því verkefni í eitt ár. Þegar leið að hausti urðu ýmsir til þess að koma að máli við mig og hvetja mig til þess að falla frá þeirri ætlan minni og gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku. Þau rök voru m.a. nefnd að atbeina míns þyrfti við að halda áfram því uppbyggingar- og endurreisnarstarfi sem hafið var í starfsemi félagsins eftir síðasta aðalfund. Enda þótt að reksturinn sé nú kominn í jafnvægi, þá má öllum ljóst vera að mikið verk er enn óunnið við að efla starfsemina enn frekar og byggja upp fjárhagslegan styrk félagsins á nýjan leik. Ljóst er að mörg spennandi tækifæri bíða á þeim vettvangi.

Það er með þetta í huga sem ég hef nú ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur á aðalfundinum í nóvember. Sú ákvörðun er tekin eftir hvatningu margra félagsmanna, en einnig af löngun til þess að halda áfram því öfluga uppbyggingarstarfi sem unnið er að á vettvangi félagsins.

Með veiðikveðju,

Bjarni Júlíusson

formaður SVFR









×