Innlent

Ákæruvaldið skilaði ginflösku sem var gerð upptæk

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Bjarni Þór Óskarsson er verjandi Hákonar.
Bjarni Þór Óskarsson er verjandi Hákonar.
Fulltrúi ákæruvaldsins skilaði í dag flösku af gini sem gerð var upptæk í tolli árið 2008 fyrir héraðsdómi Reykjaness. Eigandinn er hæstánægður, en óttast að það sé farið að slá í tónikflöskuna sem hefur staðið óhreyfð síðan þá.

Hákon Stefánsson ætlaði með tvær ginflöskur í gegnum tollinn haustið 2008, en þar var önnur þeirra tekin af honum, þar sem reglugerð heimilaði ekki ferðamönnum að fara með meira en einn líter af sterku víni inn í landið. Hákon taldi að reglugerðin stæðist ekki lög þar sem í henni fælist framsal á skattlagningarvaldi, en reglugerðin var raunar lögfest í desember það ár.

Hákon vildi því láta reyna á málið fyrir dómstólum; neitaði sátt í málinu og var að lokum ákærður fyrir ólögmætan innflutning á áfengi. Málið hefur síðan verið fyrir dómstólum, en það tók óvænta stefnu í morgun þegar aðalmeðferð málsins átti að halda áfram og ákæruvaldið skilaði flöskunni.

„Málið var tekið fyrir hjá dómara, og eins og hafði verið boðað felldi ákæruvaldið málið niður þar og þá,“ segir Bjarni Þór Óskarsson, verjandi mannsins. „Dómari ákvað þóknun verjandans, og eftir þinghaldið afhenti fulltrúi ákæruvaldsins ginflöskuna sem hafði verið haldlögð,“ segir Bjarni og bætir við að þetta sé vissulega óvenjulegt, en ákæruvaldið hafi líklegast ekki talið sig hafa sterkt mál í höndunum.

Málskostnaðurinn var ákveðinn 690.000 krónur, svo leitun er að dýrari ginflösku í heiminum, þó Hákon hafi verið ánægður með málalokin.

„Hún var náttúrulega hræbilleg fyrir mig, því ég keypti hana í fríhöfninni,“ segir Hákon. „Hún var samt ansi dýr fyrir ríkið, sem þurfti að borga 690.000 kall til míns lögmanns. Þó ég viti að stjórnvöld hafi verið dugleg við að hækka áfengisgjöld, þá efast ég um að verðið á ginflöskunni nái þessum hæðum alveg strax.“

Hann er staddur erlendis, en lögmaður hans hafði samband í dag. Hann segir sigurinn sætan, og spurður hvort sigurbragð yrði af gininu góða þegar hann fengi loks að smakka það svarar Hákon:

„Það verður örugglega mjög ljúft, en það er sennilega farið að slá aðeins í tónikið. Tónikflaskan er búin að bíða á borðinu frá haustinu 2008, svo ég þarf að huga að því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×