Innlent

Þyngja dóm vegna alvarlegra afleiðinga líkamsárásar

Hæstiréttur Íslands þyngdi dóm yfir Andra Vilhelm Guðmundssyni um hálft ár, er hann því dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa veist með ofbeldi að manni síðustu áramót með þeim afleiðingum að hann féll í gangstétt. Síðan sparkaði Andri ítrekað í höfuðið mannsins þar sem hann lá.

Afleiðingar árásarinnar urðu þær að fórnarlambið hlaut lífshættulegan höfuðáverka, þ.e. höfuðkúpubrot með utanbastsblæðingu undir brotinu hægra megin á gagnaugasvæði og heilamar vinstra megin í gagnstæðum hluta heila.

Við ákvörðun refsingar Andra var litið til þess að árásin var lífshættuleg og hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir fórnarlambið. Kemur meðal annars fram í úrskurði Hæstaréttar að brotaþoli hafi verið til meðferðar á endurhæfingardeild Landspítalans frá 17. janúar vegna heilaáverkans, sem hann hlaut við árás Andra.

Fórnarlambið glímir enn við töluverðar afleiðingar áverkans og er með „hugræna skerðingu“.

Taugasálfræðilegt mat hafi sýnt talsverða og fjölþætta áunna taugasálfræðilega veikleika, meðal annars minnisskerðingu og skert vinnsluminni, einbeitingu, úthald og skipulag samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. Einnig eigi hann erfitt með orðminni og sé þvoglumæltur. Þá hafi hann verki í útlimum og beri merki kvíða og þunglyndis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×