Innlent

Leggst gegn því að risahöfn á Langanesi fari á skipulag

Skipulagsstofnun leggst gegn því að Langanesbyggð fái að setja risahöfn og alþjóðaflugvöll inn á aðalskipulag þar sem hún telur áformin ekki raunhæf. Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti skipulagið í marsmánuði en samkvæmt því er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi úr 500 upp í 5000 í tengslum við stórfellda uppbyggingu.

Gert er ráð fyrir risahöfn í Gunnólfsvík og Finnafirði, sem yrði sú langstærsta á Íslandi, ásamt lóðum undir olíu- og gasvinnslustöðvar, en höfnin er hugsuð bæði til að þjóna olíuiðnaði og sem umskipunarhöfn fyrir siglingar um norðurskautið. Jafnframt er gert ráð fyrir að flugvöllurinn á Þórshöfn verði stækkaður verulega til að þjóna alþjóðaflugi.

Nokkrir bændur og landeigendur gerðu athugasemdir við skipulagið, kvörtuðu einkum undan skorti á samráði, og bentu á að gildistaka skipulagsins myndi þrengja möguleika þeirra til framkvæmda á eigin jörðum.

Undir þetta tekur Skipulagsstofnun sem leggst gegn því að umhverfisráðherra staðfesti skipulagið með þeim rökum að ekki sé, að sinni, unnt að telja áform um risahöfn og alþjóðaflugvöll raunhæf og ekki sé rétt að takmarka mögulegar framkvæmdir bænda fyrr en raunhæfari forsendur liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×