Innlent

Bjarni: Kröfuhafar soga til sín hagvöxtinn

Mynd/GVA
Fjármálaráðherra segir hugmyndir um að mikill afsláttur á lánasöfnum gömlu bankanna hafi átt að ganga til lántakenda væru úr lausu lofti gripnar. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir kröfuhafa soga til sín hagvöxtinn.

Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn bankanna var rædd á Alþingi í morgun, en Steingrímur J. Sigfússon ræddi þar meðal annars um yfirfærslu eignasafna úr gömlu bönkunum í þá nýju. Hann sagði þar að eðli málsins samkvæmt hafi þurft að koma sanngjarnt gjald fyrir eignasöfnin, burtséð frá því hvort kröfuhafar á gömlu bankanna væru erlendir eða innlendir. Ekki gengi að taka eignirnar yfir, og ákveða einhliða það gjald sem kæmi fyrir.

„Nei, þá verðum við að minnsta kosti að afnema stjórnarskrána fyrst. Vangaveltur um að sú ríkisstjórn sem sat út janúar 2009 hafi verið með áætlanir um 60-70% afslátt af lánasöfnum sem hafi átt að ganga til einstaklinga og fyrirtækja eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar. Í öllu falli hafði sú ríkisstjórn engar heimildir til slíkra aðgerða og slíkt hefði aldrei staðist,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Steingrímur lagði einnig áherslu á að aldrei hefði samist um yfirfærsluna ef kröfuhöfum hefði ekki verið gefið færi á að eignast hlut í bönkunum, eða skilyrt uppgjörsskuldabréf sem veltur á heimtum lána. Hann fullyrti að þrekvirki hefði verið unnið við lúkningu málsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi hins vegar fjármálaráðherra fyrir aðkomu kröfuhafa að bönkunum og kallaði þá hrægamma, eða hákarla, sem hefðu keypt upp kröfur á bankana á undirverði.

„Veruleikinn sem við okkur blasir er þessi, þeir sem fá að soga til sín hagvöxtinn sem að hæstvirtur forsætisráðherra hefur áhyggjur af eru kröfuhafarnir. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar að búa þannig um hnútana í samskiptum við eigendur gömlu bankanna að allur mögulegur ávinningur sem snýst að starfsemi nýju bankanna hann rennur meira eða óvinna óskiptur inn í gömlu þrotabúin,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir

Endurreisn bankanna kostaði 190 milljarða

Samtals nemur fjárbinding ríkissjóðs vegna endurreisnar viðskiptabankanna þriggja 190 milljörðum kr. Þetta kemur fram í greinargerð frá fjármálaráðherra um málið en eins og kunnugt er af fréttum hefur töluverð umræða orðið um hver þessi kostnaður ríkissjóðs hafi í raun verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×