Innlent

"Það er ekki okkar markmið að sekta"

Þessi stæði við Laugardalshöllina voru auð á meðan fjöldi fólks lagði ólöglega annars staðar á þessu sama svæði um helgina
Þessi stæði við Laugardalshöllina voru auð á meðan fjöldi fólks lagði ólöglega annars staðar á þessu sama svæði um helgina Mynd: Lögreglan
„Það er ekki okkar markmið að sekta. Ef við þurfum ekki að sekta einn einasta ökumann þá erum við sáttir," segir Kristján Guðnason lögreglumaður. Fjöldi ökumanna hefur verið sektaður að undanförnu fyrir að leggja ólöglega þegar þeir sækja kappleiki eða fjölskylduhátíðir. Margir þessara ökumanna hafa lýst yfir óánægju sinni með þetta. Lögregla hefur hins vegar ítrekað vakið athygli á því fyrir stóra viðburði að ökumenn sem leggi ólöglega megi búast við því að fá sektir, og þeim bent á að koma á hjólandi, gangandi eða einfaldlega leggja í nokkurra mínútna göngufjarlægð.

Kristján var gestur Sindra Sindrasonar og Kolbrúnar Björnsdóttur Í bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem þau ræddu ástæður þess að lögreglan sinnir þessu eftirliti.

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst spurning um virðingu fyrir lögum og reglum og virðingu fyrir þeim sem búa inni í þessum hverfum sem hafa lent í því að komast ekki heim til sín, komast ekki að heiman," sagði Kristján Í bítinu.

„Þetta er hættuástand sem skapast oft á tíðum við þessa staði þar sem götur nánast lokast, gangbrautir, gangstéttar ekki hægt að fara þar um. Þannig að þetta er ófremdarástand sem við í sameiningu, ekki bara lögreglan þó lögreglan sé í þessu átaki, heldur ekki síður ökumenn, að þeir farið að velta þessu aðeins fyrir sér og taki til í eigin ranni," sagði Kristján.

Viðtal Sindra og Kolbrúnar við Kristján má heyra í heild sinni með því að smella á tengilinn hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×