Innlent

Segir grunnlögin vernda brotamenn

Arnar Jensson hefur rannsakað úrræði yfirvalda til að ná til baka ólögmætum ávinningi á Írlandi, í Noregi og á Íslandi. Mynd/GVA
Arnar Jensson hefur rannsakað úrræði yfirvalda til að ná til baka ólögmætum ávinningi á Írlandi, í Noregi og á Íslandi. Mynd/GVA
Arnar Jensson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol, hefur, í eigin nafni en ekki sem fulltrúi yfirvalda, sent inn erindi til stjórnlagaráðs um að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verði tekið til sérstakrar skoðunar. Ástæðan er mat Arnars um að eignarréttur njóti meiri lagaverndar á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Eins og ákvæðið er núna kemur það í veg fyrir að hægt sé að setja í lög alþjóðlega viðurkennd úrræði sem auðvelda yfirvöldum að ná til baka ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi.

 

Í erindi Arnars segir að nú ryðji sér til rúms sérstakt lagaúrræði sem beita má innan einkamálaréttarfars þar sem sönnunarþröskuldur er lægri en innan sakamálaréttarfars. Það gengur út á að auðvelda yfirvöldum að ná til baka ólögmætum hagnaði af brotastarfsemi sem er mjög erfitt vegna krafna um tengsl við sakfellingar þeirra sem í hlut eiga.

 

Arnar bendir á að Sþ, ESB og Evrópuráðið, auk Alþjóðabankans og AGS mæli með að aðildarlöndin taki upp slíkt lagaúrræði.

 

Lögfróðir menn á Íslandi telja að stjórnarskrá Íslands standi í vegi fyrir því að slíkt úrræði verði sett í lög hér. Telur Arnar því sterk rök fyrir því að stjórnarskráin verndi þá sem ná til sín slíkum ávinningi og standi í vegi stjórnvalda til að bregðast við því. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×