Innlent

Útboð byggingar nýs fangelsis að bresta á

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir hagkvæmara að nýtt fangelsi verði reist með opinberri framkvæmd.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir hagkvæmara að nýtt fangelsi verði reist með opinberri framkvæmd. Mynd/Stefán Karlsson
Útboð byggingar nýs fangelsis er að bresta á, að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Málið er á dagskrá ríkisstjórnarinnar næstkomandi föstudag.

 

„Það þýðir vonandi að við fáum niðurstöðu í málið, ekki síðar en á þriðjudag,“ segir innanríkisráðherra. „Það er einhugur um að bjóða út fangelsið. Það sem hefur verið til umræðu er í hvaða formi útboðið eigi að vera, hvort þetta eigi að vera opinber framkvæmd eða einkaframkvæmd. Það er mjög brýnt að útboð nýs fangelsis komist á rekspöl hið allra fyrsta. Það hefur tafist um nokkrar vikur að hefja útboðið enda ekki hristir fram úr erminni tveir milljarðar sem áætlað er að fangelsið kosti.“ Ráðherra útskýrir að þegar hann hafi komið að málinu hafi hugmyndin verið sú að bjóða fangelsið út í einkaframkvæmd, nokkuð sem hann hafi rakið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirrar hugmyndafræði sem hann stendur fyrir.

 

„Nú heyri ég að hann sé ekki að setja þessa kröfu fram nema þá óbeint í kröfunni um að ná hallalausum fjárlögum sem fyrst. Slíkt væri þó bara bókhaldsatriði því ef við reisum fangelsi þá borgar ríkið hverja einustu krónu framkvæmdarinnar hvort sem það er einkaframkvæmd eða opinber framkvæmd. Einkaframkvæmd þýðir að ríkið felur einkaaðila að reisa fangelsið og leigir það síðan af honum. Það er dýrari kostur og við hljótum að gera það sem er ódýrast og hagkvæmast.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×