„Þetta er langbesta byrjun hennar frá upphafi og þótti þó mörgum nóg um í fyrra,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti og Veröld, um söluna á nýjustu glæpasögu Yrsu Sigurðardóttur, Brakið.
Um sex þúsund eintök hafa verið send í búðir og að sögn Péturs Más hefur salan aukist um fimmtíu prósent frá síðustu bók, Ég man þig, ef miðað er við sama tímaramma og í fyrra. „Þá fórum við úr tíu þúsundum í sextán þúsund eintök. Núna prentuðum við í sextán þúsundum í fyrsta upplagi og reiknum með því að prenta meira,“ segir hann.
Til marks um stigvaxandi vinsældir Yrsu var salan á Ég man þig á sama tíma í fyrra einnig fimmtíu prósentum meiri en á bókinni þar á undan, Horfðu á mig. „Við áttum von á því eins og fyrsta prentun gefur til kynna að salan yrði alla vega jafngóð og í fyrra. En við áttum ekki von á 50 prósenta aukningu,“ segir Pétur Már, sáttur við gang mála.
Ég man þig hefur selst í yfir tuttugu þúsund eintökum hérlendis. Í Þýskalandi hefur bókin setið í átta vikur á metsölulistanum og áætla þarlendir útgefendur að bókin nái eitt hundrað þúsund eintaka sölu fyrir jólin. Eldri bækur Yrsu hafa tekið mikinn kipp í Þýskalandi síðan Ég man þig kom út og þá sérstaklega Horfðu á mig.
„Við bíðum mjög spennt eftir ársuppgjörinu frá þeim.“ - fb
Langbesta byrjunin hjá Yrsu
