Innlent

Sorptunnureglan tekur gildi í ágúst

Ákveðið hefur verið að fresta því að umdeild sorptunnuregla taki gildi í Reykjavík en hún kveður á um sérstakt gjald vegna sorptunna sem eru lengra en 15 metra frá götu.

Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í desember voru gerðar breytingar á samþykktum borgarinnar um meðhöndlun sorps í Reykjavík. Hluti af breytingunum fólust í upptöku sérstaks gjalds til þeirra sem eiga hús þar sem sækja þarf ruslatunnurnar e lengra en 15 metra frá ruslabíl. Breytingarnar voru samþykktar einróma, sem þýðir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna studdu þær.

Í sérstakri umsögn Kristbjargar Stephensen, borgarlögmanns, sem fréttastofa hefur undir höndum og var unnin vegna fyrirspurnar Mörtu Guðjónsdóttur, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, segir að 15 metra reglan eigi sér næga stoð í lögum og brjóti ekki gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá telur hún að fyrirkomulag að bjóða íbúum sem eru með ruslatunnur sínar lengra en 14 metrum frá sorpbíl upp á valkvæða þjónustu, þ.e að fá sorpið sótt heim og greiða fyrir það hærra gjald, geti vel fallið að samþykktum um meðhöndlun úrgangs í borginni.

Hins vegar segir borgarlögmaður í umsögn sinni að í gjaldskrá Sorphirðu Reykjavíkurborgar sé gengið lengra en ákvæði samþykktarinnar um meðhöndlun úrgangs feli sér en í gjaldskránni er gengið út frá því að sorptunnur verði eingöngu sóttar 15 metra frá sorpbílnum nema greitt sé sérstakt gjald, 4800 krónur. Telur hún vafa leika á því að slík framkvæmd standist ef hennar sér ekki stað í samþykktum borgarinnar. Þá dregur hún í efa að upphæðin, 4800 krónur, uppfylli kröfur sem gera verði um rökstuðning fyrir þjónustugjaldi.

Reykjavíkurborg hefur nú tekið ákvörðun um að fresta gildistöku reglnanna þangað til í ágúst næstkomandi meðal annars vegna þessarar óvissu um tilhögun gjaldtökunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×