Innlent

Yfirvinnubann hefst að óbreyttu eftir hádegi

Yfirvinnubann flugmanna Icelandair tekur gildi klukkan 14 verði ekki samið fyrir þann tíma.
Yfirvinnubann flugmanna Icelandair tekur gildi klukkan 14 verði ekki samið fyrir þann tíma. Mynd/Pjetur
Samningamenn flugmanna hjá Icelandair og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins reyna nú til þrautar að ná samkomulagi í kjaradeilunni, til að koma í veg fyrir yfirvinnubann flugmanna, sem hefst eftir þrjár klukkustundir, ef ekki semst fyrir þann tíma.

Samningafundur deilenda sem hófst í gærmorgun stóð hjá Ríkissáttasemjara fram yfir miðnætti þegar hlé var gert á honum. Þeir komu aftur í hús hjá Ríkissáttasemjara upp úr klukkan ellefu og er formlegur fundur væntanlega að hefjast. Röskun mun að líkindum verða á flugi Icelandair ef til bannsins kemur því ekki verður þá hægt að kalla út flugmann ef einhver flugmaður forfallast.

Deila flugliða hjá Icelandair við vinnuveitandann er líka komin til Ríkissáttasemjara og verður næsti fundur á þriðjudag. Flugliðar hafa ekki boðað aðgerðir.

Atkvæðagreiðsla stendur síðan yfir í röðum flugvirkja hjá Icelandair, en þeir skrifuðu undir þriggja ára samning fyrir helgi. Þeir aflýstu boðuðum aðgerðum við undirskrift og verða úrslit atkvæðagreiðslunnar ljós síðdegis á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×