Innlent

Flugfarþegar hvattir til að kanna rétt sinn

Neytendasamtökin benda fólki á að leita réttar síns verði það fyrir tjóni eða óþægindum vegna tafa á flugi. Fréttablaðið/Teitur
Neytendasamtökin benda fólki á að leita réttar síns verði það fyrir tjóni eða óþægindum vegna tafa á flugi. Fréttablaðið/Teitur
Flugfarþegar sem lenda í óþægindum vegna tafa á flugferðum gætu átt margs konar rétt gagnvart flugfélögunum, að því er Neytendasamtökin segja.

Sem dæmi höfðu ung hjón samband við Fréttablaðið og sögðu farir sínar ekki sléttar. Vegna fjögurra klukkustunda tafar á flugi Iceland Express frá Keflavík til London fyrr í mánuðinum misstu þau af flugi með Easyjet til Marokkó þar sem þau hugðust dvelja í vikutíma.

Þau þurftu því að koma sér á áfangastað með öðrum leiðum með tilheyrandi kostnaði og ónæði. Þá voru þau óánægð með svör sem þau fengu frá skrifstofu Iceland Express, enda var þeim tjáð að fyrirtækið tæki ekki ábyrgð á tengiflugi sem ekki væri á þess vegum.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir í samtali við Fréttablaðið að fyrirtækið selji ferðir með „point-to-point“- fyrirkomulagi sem snúi að einstökum ferðum, en ekki tengiflugi nema það sé með vélum Iceland Express.

„Við reynum hins vegar í flestum tilfellum að hjálpa eins og hægt er ef fólk lendir í ógöngum.“

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna, segir sjálfsagt að flugfarþegar sem telji á sér brotið snúi sér til viðeigandi aðila til þess að kanna rétt sinn. Þessi mál geti þó verið flókin.

„Almennt talað geta farþegar átt margs konar rétt, ýmist á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega eða laga um loftferðir, og það er um að gera að tala við okkur eða flugmálastjórn eða jafnvel leita til úrskurðarnefndar í ferðamálum til að kanna málið.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×