Innlent

Umdeildar framkvæmdir við Landeyjahöfn

Vinna við að færa ósa Markarfljóts austur frá Landeyjahöfn er hafin. Siglingastofnun fullyrðir að ekki þurfi umhverfismat vegna framkvæmdanna eins og krafist hafði verið.

Aðeins eru fáeinir áratugir frá því að varnarargarðar fljótsins náðu að stöðva sífellda eyðileggingu í sveitunum í nágrenni Markarfljóts. Nú á að koma í veg fyrir að gjóskan og aurinn sem fljótið ber eyðileggi Landeyjahöfn.

Fyrir um viku hófst vinna við að færa ósa Markarfjólts um 400 metra til austurs með 600 metra löngum varnargarði til að reyna að verja höfnina en vitað er að gríðarlegt magn gjósku mun berast með fljótinu í næstu leysingum.

Þær aðgerðir sem verið er að ráðast í núna er mun minni en þær fyrstu en þær gerðu ráð fyrir að ósarnir myndu yrðu um tvo kílómetra austar en þeir eru nú.

Hins vegar töldu margir að svo viðamikið mál þyrfti miklu meiri skoðun. Landeigendur töldu alveg ljóst að Skipulagsstofnun yrði að fjalla um málið og það yrði að fara í umhverfismat enda gætu aðgerðirnar stefnt grónu landi og fiskgengd á svæðinu í voða.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitastjóri Rangárþings-eystra, segir að eftir að Siglingastofnun útbjó hófsamari tillögur hafi sveitarstjórnin séð sér fært að gefa út framkvæmdaleyfi eftir að hafa farið yfir umsögn Umhverfisstofnunnar og Skipulagsstofnunnar á þeim.

Upplýsingafulltrúi Siglingastofnunnar fullyrðir að ekki þurfi umhverfismat fyrir þeim framkvæmdum sem nú hefur verið ráðist enda séu þær mun viðaminni en fyrri tillögur gerðu ráð fyrir. Tekið hafi verið tillit til sjónarmiða sem stofnunni hafi borist og framkvæmdunum eigi að ljúka fyrir lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×