Innlent

Íslendingur í Brisbane segir fólk óttaslegið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fólk í Brisbane í Ástralíu er orðið óttaslegið vegna flóðanna sem þar eru, segir Jón Björnsson, Íslendingur sem hefur búið þar í 30 ár. Gríðarlegt flóð er í Brisbane núna. Frá því í gær hafa 10 látist og tæplega áttatíu saknað af völdum þess.

Sjálfur er Jón ekki í hættu, enda býr hann um 7-8 kílómetrum frá borginni. Mesti vatnsflaumurinn er hins vegar í miðbænum. „Þar sem ég á hús hefur kannski farið að renna vatn inn í bílskúr og það hefur þurft að skera í gegnum stéttina og leggja rennur, en ég er svo langt í burtu frá ánni að það gerist ekkert hérna," segir Jón í samtali við Vísi.

Jón segir að talið sé að um 6500 - 9000 heimili og fyrirtæki muni verða vatnsflaumnum að bráð. Flóðið muni snerta 20 þúsund heimili til viðbótar. Hann segir að fólk sé óttaslegið enda hafi mikið flóð skollið á árið 1974 og búist við því að það verði jafnvel meira núna. „Menn eru alveg niðurbrotnir eftir þetta, eins og sögurnar fara af 1974," segir Jón. Og Jón segir að fólk sem býr á svæðunum þar sem flóðin eru sem verst sé við öllu viðbúið. „Fólk er búið að pakka niður eins og það getur og taka með allt sem þeim fannst þau þurfa að taka með sér. Það sem mönnum er annst um," segir Jón.

Ítarlega verður rætt við Íslendinga á flóðasvæðunum í kvöldfréttum Stöðvar 2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×