Innlent

Fengu rúm og skólavörur

Birna Halldórsdóttir afhenti börnum á Haítí skólavörur og rúm fyrir peninga sem íslensk börn söfnuðu með tombólum.Mynd/Rauði Kross íslands
Birna Halldórsdóttir afhenti börnum á Haítí skólavörur og rúm fyrir peninga sem íslensk börn söfnuðu með tombólum.Mynd/Rauði Kross íslands

Nærri 600 börn á Haítí njóta góðs af tombólum álíkra margra íslenskra barna, sem höfðu safnað samtals rúmlega einni milljón króna til styrktar starfi Rauða kross Íslands á Haítí.

Peningarnir voru notaðir til þess að útvega munaðarlausum börnum, sem hingað til hafa sofið á jörðinni, rúm til að sofa í, ritföng til að nota í skólanum og nýjar skólatöskur.

„Það var yndislegt að geta útvegað rúmin því hingað til hafa flest börnin sofið á jörðinni í litlum tjöldum,“ segir Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross Íslands á Haítí, sem er nýkomin heim. „Við fórum líka með stórt tjald á staðinn og núna geta börnin sofið í rúmum í því.“

Á munaðarleysingjaheimilinu eru 24 börn. „Skólinn er nýhafinn og kennslan fer fram í tjaldi. Það var svo gaman að geta afhent börnunum skriffæri og bækur því þau áttu ekkert slíkt og þau langar svo mikið til að læra.“

Birna starfaði á tjaldsjúkrahúsi, sem komið var upp á knattspyrnuvelli í úthverfi höfuð­borgarinnar Port-au-Prince.

Á sjúkrahúsið hafa komið börn úr nágrenninu til að fá sálrænan stuðning eftir hinn hræðilega jarðskjálfta sem varð 220.000 manns að bana 12. janúar 2010.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×