Innlent

Fjarnemum fækkar um 66% á milli ára

Nemendum í fjarnámi hefur fækkað gífurlega á milli ára síðan fjárveitingum ríkisins til framhaldsskóla var hætt. 
Fréttablaðið/anton
Nemendum í fjarnámi hefur fækkað gífurlega á milli ára síðan fjárveitingum ríkisins til framhaldsskóla var hætt. Fréttablaðið/anton

Nemendum í grunnskóla sem sækja fjarnám í framhaldsskólum fækkaði úr 444 í 150 á milli áranna 2009 og 2010, eða um 66 prósent. Öllum nemendum í fjarnámi í framhaldsskólum hefur fækkað úr 3.755 í 2.462 á milli ára, sem er rúmlega þriðjungs fækkun.

Árið 2008 var ákveðið að veita grunnskólanemendum tækifæri til þess að sækja áfanga í framhaldsskóla í stað þess að sitja valáfanga.

Menntamálaráðuneyti veitti þeim þrem framhaldsskólum sem bjóða upp á fjarnám, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Verzlunarskóla Íslands og Verkmenntaskólanum á Akureyri, fjárveitingar til þess að mæta þörfum þessara nemenda.

Í lok árs 2009 var ákveðið að hætta þessum fjárveitingum og var áætlaður sparnaður um 120 milljónir króna. Sum sveitarfélög hafa tekið yfir fjárveitingar til framhaldsskólanna og kostað þannig nám grunnskólanema, en að öðrum kosti fellur kostnaðurinn á foreldra.

Hver eining í fjarnámi kostar frá 4 til 5 þúsund krónur og er skráningargjald á bilinu 6 til 8 þúsund krónur.

þorbjörg helga vigfúsdóttir

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, efast um lögmæti aðgerðanna þar sem lögin frá árinu 2008 eigi að veita nemendum sem skara fram úr það tækifæri að nýta framhaldsskólanámið samhliða grunnskólanum. Einnig bendir Þorbjörg á að í sumum tilvikum sé einungis verið að velta kostnaði yfir á sveitarfélögin, sem séu sum hver ekki vel í stakk búin til að standa undir því.

„Það er hægt að færa rök fyrir því að sparnaðurinn þýði aukinn kostnað til lengri tíma þar sem þessir nemendur spari ríkinu fjármuni með því að fara hraðar í gegnum framhaldsskólakerfið,“ segir Þorbjörg.

Fjölbraut við Ármúla og Verzlunarskólinn ákváðu að halda áfram að taka inn grunnskólanemendur til fjarnáms á vorönn 2010, þrátt fyrir afnám fjárveitinganna. Verkmenntaskólinn á Akureyri tók alfarið fyrir inngöngu grunnskólanema í fjarnám á síðasta ári. - sv


Tengdar fréttir

Umræðu um rafbíla vantar jarðtengingu

Rafbílavæðing Íslands tekur áratugi, segir Sverrir Viðar Hauksson, formaður Bílgreinasambandsins. Hann segir umræðu um framtíðartækni í samgöngum óraunhæfa á stundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×