Innlent

Segir það orðið bráðnauðsynlegt að skipta um ríkisstjórn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir stýrivaxtahækkun Seðlabankans, og segir að efnahagshorfurnar sem birtast í hagspá bankans kalli á kosningar.

Bjarni segir vaxtahækkun Seðlabankans illskiljanlega og hefur af henni áhyggjur þar sem hagkerfið sé enn í hægagangi. Hann segist einnig hafa miklar áhyggjur af þeirri mynd sem dregin er upp í hagspá bankans, þar sem gert er ráð fyrir 1,6 prósent hagvexti á næsta ári. Hann vill skapa umhverfi fyrir nýjar fjárfestingar, ljúka skuldaúrvinnslu heimila og fyrirtækja, skapa ró um sjávarútveginn og nýta þá virkjunarkosti sem eru til staðar.

„Ég tel að það sé orðið bráðnauðsynlegt að skipta um ríkisstjórn í landinu, helst með kosningum," segir Bjarni. „Það þarf nýja stjórnarstefnu þar sem við getum skapað umhverfi fyrir nýjar fjárfestingar. Verðbólgutölurnar sem birtast í þessari hagspá eru líka mikið áhyggjuefni. Ef þær ná fram að ganga stefnir í mikla óánægju á vinnumarkaði áður en langt um líður. Það eru að hrannast upp teiknin um það að ríkisstjórnarstefnan sem er við lýði í dag sé orðin gjaldþrota. Við getum ekki haldið svona áfram."

Aðspurður hvort ekki sé hæpið að kenna ríkisstjórninni um verðbólguna, sem sé rót vaxtahækkunarinnar segir Bjarni „Verðbólgan sem er að mælast í dag er að hluta til komin til vegna erlendra áhrifamátta. Síðan eru það innlendir áhrifaþættir, sem meðal annars má rekja til kjarasamninganna síðan í vor. Ríkisstjórnin hefur átt mikil samskipti við aðila vinnumarkaðarins allt þetta kjörtímabil, og ég vil horfa svo á að þeir hafi sprungið á limminu síðasta vor."

„Eftir að beðið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í rúm tvö ár sprakk öll þolinmæði á vinnumarkaði sem varð til þess að menn gerðu óraunhæfa samninga um launahækkanir, of miklar miðað við það sem var í kortunum. Ríkisstjórnin fylgdi þessu síðan úr hlaði með því að lofa tuga milljarða útgjaldaauka sem engin innistæða var fyrir. Ástandið í dag er skilgetið afkvæmi ríkisstjórnarstefnunnar sem hér hefur verið við lýði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×