Innlent

Lögreglan á Selfossi elti meinta innbrotsþjófa til Reykjavíkur

Lögreglan á Selfossi fékk rétt fyrir klukkan fimm í morgun tilkynningu um yfirstandandi innbrot í sumarhús í Úthlíð. Á leið sinni þangað mætti lögreglan meintum gerendum á bíl en þeir sinntu ekki stöðvunarmerkjum og reyndu að komast undan lögreglu. Þeir voru að lokum handteknir þegar komið var til Reykjavíkur.

„Þeim var veitt eftirför og lokanir undirbúnar á áætlaðri leið þeirra á Selfoss en ökumaður bílsins fór hinsvegar af Biskupstungnabraut um Þingvallaveg, Grafningsveg og Nesjavallaleið.   Þá voru settar upp lokanir á Nesjavallaleið, skammt vestan Dyrfjalla,  en hann hundsaði þær og akstur hans stöðvaðist ekki fyrr en komið var niður undir Reykjavík,“ segir í tilkynningu lögreglu. „Þar lenti hann út af vegi þegar hann var að reyna að koma sér framhjá lokun sem lögreglan þar hafði sett upp. Engin slasaðist í útafakstrinum og litlar skemmdir munu vera á bílnum.  Í bílnum reyndust vera tveir aðilar, með ætlað þýfi,  sem nú verða fluttir í fangageymslur á Selfossi vegna rannsóknar málsins.“

Lögreglan á Selfossi þakkar Sérsveit Ríkislögreglustjóra og Lögreglu Höfuðborgarsvæðisins veitta aðstoð í málinu.

Í samtali við fréttastofu segir varðstjórinn hjá lögreglunni á Selfossi að verið sé að kanna hvort farið hafi verið inni í fleiri bústaði á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×