Lífið

Yrsa Sigurðardóttir heillar Þjóðverja

Vinsæl í Þýskalandi Yrsa Sigurðardóttir nýtur sívaxandi vinsælda í Þýskalandi. Yfir 50 þúsund eintök hafa selst af nýjustu bók hennar þar í landi.
Mynd/Sigurjón Ragnar
Vinsæl í Þýskalandi Yrsa Sigurðardóttir nýtur sívaxandi vinsælda í Þýskalandi. Yfir 50 þúsund eintök hafa selst af nýjustu bók hennar þar í landi. Mynd/Sigurjón Ragnar
„Við erum í skýjunum yfir þeim viðtökum sem nýjasta bók Yrsu hefur fengið í Þýskalandi. Nú er bara að sjá hvernig Ég man þig spjarar sig í öðrum löndum,“ segir Pétur Már Ólafsson, bókaútgefandi í Veröld.

Í gærmorgun höfðu 53.346 eintök selst af bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, í Þýskalandi. Bókin situr í 24. sæti á metsölulistanum yfir kiljur og hefur verið á listanum í sex vikur samfleytt. Hæst fór bókin í 23. sæti listans. „Þetta er langbesta byrjun Yrsu í Þýskalandi. Viðtökurnar hafa verið frábærar,“ segir Pétur Már enn fremur.

Viðbrögð fjölmiðla hafa sömuleiðis verið jákvæð. Tímaritið Bücher sagði að Ég man þig væri „eitt af meistaraverkum spennubókmenntanna“ og Main Echo sagði að sagan væri „hörkuspennandi og frábærlega tvinnuð saman“. Þá staðhæfir Frankfurter Rundschau að Yrsa sé ein þriggja mikilvægustu kvenglæpasagnahöfunda samtímans.

Ég man þig kemur á næstunni út í Noregi, þá í Póllandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og síðan koll af kolli. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Sigurjón Sighvatsson tryggt sér réttinn til að kvikmynda söguna. Aðdáendur Yrsu á Íslandi fá svo nýja bók eftir hana um miðjan nóvember. Sú kallast Brakið og þar er Þóra lögmaður aftur til umfjöllunar.

- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×