Innlent

Staðan verst þar sem mannfjöldi er mestur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, stýrir vinnu hópsins sem skoðar fjármál Kirkjunnar.
Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, stýrir vinnu hópsins sem skoðar fjármál Kirkjunnar. Mynd/ Sig. Jökull.
„Það er auðvitað rík krafa á þjónustu kirkjunnar. Þess vegna þarf að fara yfir það hvað er hægt að ganga langt í niðurskurði,“ segir Ingibjörg Pálmadóttir, sem stýrir hópi á vegum innanríkisráðuneytis sem skoðar fjármál Kirkjunnar. Hópurinn á að skoða hvaða áhrif niðurskurður á framlögum til Kirkjunnar hefur haft og hve langt er hægt að ganga í þeim efnum. 

Ingibjörg segir að hópurinn hafi hist einu sinni og sé rétt að hefja störf. „Við erum svona að skoða ársreikninga sókna og síðan ætlum við að kynna okkur hvernig staðan er. Hún er örugglega mjög mismunandi - sumsstaðar bara nokkuð góð og annarsstaðar erfiðari eins og gengur,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segist telja að staðan sé verst í sóknum þar sem mannfjöldinn er mestur. „Þar er þörfin mest fyrir sálgæslu og þjónustu kirkjunnar,“ segir Ingibjörg. Hún segir að nú þegar hafi verið hagrætt verulega í rekstri Kirkjunnar, bæði með fækkun stöðugilda og lækkun launa.


Tengdar fréttir

Skoða niðurskurð á framlögum til kirkjunnar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skipað nefnd til að meta hvaða áhrif niðurskurður fjárveitinga hafi haft á starfsemi þjóðkirkjunnar og hverjar yrðu afleiðingarnar ef haldið yrði áfram á þeirri braut. Nefndin kom saman til síns fyrsta fundar á miðvikudaginn og mun skila áliti til ráðherra fyrir 1. maí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×